Íslandsmót ÍF í boccia, sveitakeppni mun fara fram á Akureyri dagana 29. apríl til 1. maí 2022
Lionsklúbburinn Hængur verður umsjónaraðili Íslandsmótsins í boccia 2022.
Lionsklúbburinn Hængur er að bregðast við aðstæðum og koma til móts við iðkendur ÍF sem hafa lengi beðið eftir því að fá að keppa á Íslandsmótinu í boccia. Upphaflega var stefnt að því að halda mótið í mars en það var ekki talið nógu örugg tímasetning m.t.t. aðstæðna. Fresta hefur þurft mótinu ítrekað.
Félagsmenn Lionsklúbbsins Hængs hafa í áratugi verið í góðu samstarfi við ÍF og staðið fyrir árlegu Hængsmóti á Akureyri sem hefur notið mikilla vinsælda. Þegar ljóst var að ekki var hægt að halda mótið í mars og erfiðleikar voru með hús á Reykjavíkursvæðinu í vor var leitað eftir möguleikum á að halda mótið úti á landi. Eins og oft áður voru það félagar Lionsklúbbsins Hængs sem brugðust við aðstæðum og tóku ákvörðum með hagsmuni iðkenda ÍF að leiðarljósi. Þeir hafa staðfest að í stað hefðbundins Hængsmóts 2022 mun klúbburinn standa að og skipuleggja Íslandsmót ÍF í boccia sveitakeppni 2022 í samstarfi við boccianefnd ÍF. Keppni mun hefjast á hádegi á föstudagi og mótinu lýkur með lokahófi á laugardagskvöld.
Staðfest verður fljótlega hvort Íslandsmót ÍF í borðtennis og lyftingum verða tengd mótinu fyrir norðan.
Stjórn ÍF er afar þakklát Lionsklúbbnum Hæng sem enn og aftur sýnir stuðning við starf ÍF og ekki síst við iðkendur sem loksins fá tækifæri til að keppa á Íslandsmóti í boccia eftir langa bið.
Nánari upplýsingar um tímasetningu keppni verða sendar frá Lionsklúbbnum Hæng og boccianefnd ÍF.