Agata Erna verður eins og drottning á sviðinu í Graz í Austurríki


Nú fer að líða að því að Agata Erna Jack sýnir listir sínar í Graz í Austurríki, þar sem haldnir verða fyrstu heimsleikar Special Olympics í dansíþróttum.  Special Olympics samtökin (SOI) voru stofnuð árið 1968 af Kennedy fjölskyldunni. Á leikum SOI fá allir tækifæri til keppni við sína jafningja. Þetta er í fyrsta skipti sem Ísland á fulltrúa í danskeppni á vegum Special Olympics og Agata Erna er að ryðja brautina fyrir þá sem á eftir koma og er glæsilegur fulltrúi Íslands. 

Íþróttasamband fatlaðra og Special Olympics á Íslandi hafa átt frábært samstarf við Dansíþróttasamband Íslands og dansfélagið Hvönn í Kópavogi þar sem Agata Erna hefur stundað æfingar. Undirbúningur hefur staðið yfir undanfarna mánuði og DSÍ og dansfélagið Hvönn hafa haft umsjón með þessu verkefni. 

Dansíþróttasaga Agötu Ernu Jack er athyglisverð, áralöng saga og það er sannarlega ánægjulegt að hún hafi verið valin í þetta mikilvæga verkefni, fyrst Íslendinga. Þegar valið er á leika Special Olympics er horft á mætingu, áhuga  framfarir og félagslega hegðun iðkenda og því eiga allir tækifæri til þátttöku.

Agata Erna æfir í dansfélaginu Hvönn í Kópavogi og hún mun taka þátt ásamt þjálfara sínum Lilju Rut Þórarinsdóttur. Keppnisform er Pro-am aðferð þar sem dómarar dæma aðeins hennar frammistöðu. Mótið hefst 20. ágúst en lagt verður af stað á morgun 17. ágúst og hún er í góðum höndum aðstoðarfólks. Það eru þjálfarar hennar Lilja Rut Þórarinsdóttir og Hildur Ýr Arnardóttir sem fylgja henni á mótið ásamt því sem Bergrún Stefánsdóttir, formaður DSÍ mun vera þeim innan handar en hún mun einnig afla upplýsinga fyrir Ísland um þessa nýju keppnisgrein. Í hópnum verða einnig stoltir foreldrar sem ætla að fylgjast með keppninni.

Dagskrá mótsins er vel skipulögð en auk keppni verða myndatökur, æfingar, heimboð hjá fylkisstjóranum og margt fleira sem íslenski hópurinn tekur þátt í. Að sjálfsögðu verða Covid próf og vel hugsað um að allt gangi vel í þessum aðstæðum. Agata stígur svo á svið í höll í Graz, þar sem keppni fer fram og verður því eins og drottning þegar á sviðið er komið.  Í kjölfar mótsins verður þjálfaranámskeið sem íslensku þjálfararnir munu sækja og án efa kemur hópurinn með mikilvæga þekkingu og reynslu heim til Íslands

Til hamingju DSÍ og dansfélagið Hvönn, til hamingju Agata og foreldrar.  Gangi ykkur öllum vel í Graz og takk fyrir að hjálpa til við að ryðja brautina og skapa ný tækifæri í íþróttasögunni.