Undirbúningur kominn í fullan gang fyrir heimsleika Special Olympics í KAZAN 2022


500 íslenskir keppendur hafa fengið tækifæri til þátttöku á Heims- og Evrópuleikum Special Olympics og framundan er næsta stóra  verkefni, Heimsleikar Special Olympics í vetraríþróttum í Kazan, Rússlandi.

6 keppendur frá Skautadeild Aspar sem valdir voru til þátttöku í listhlaupi á skautum, hafa æft af krafti og eru spennt fyrir verkefninu. Þrátt fyrir Covid 19 tímabil hafa þau sýnt miklar framfarir og aukna tækni á svellinu. Hópurinn tók þátt í sýningu skautadeildar Aspar sl. sunnudag og hér eru þau ásamt Guðmundi Sigurðssyni lögreglumanni og fulltrúa LETR á Íslandi sem verður fulltrúi Íslands í kyndilhlaupi lögreglumanna.  Á myndinni eru f.v. .Jóhanna Sigurðardóttir, Teuffler, Sóldís Haraldsdóttir, Védís Harðardóttir, Guðmundur Sigurðsson, Bjarki Rúnar Steinarsson, Snædís Ósk Egilsdóttir og Gabríella Kami Árnadóttir.    

GLÆSILEGIR FULLTRÚAR ÍSLANDS.  TIL HAMINGJU ÖLL

 


Heimsleikar Special Olympics í vetraríþróttum fara fram í Kazan í Rússlandi dagana 22 - 29 janúar 2022 en heimsleikar eru haldnir fjórða hvert ár, sumar og vetrarleikar. 

https://www.specialolympics.org/our-work/games-and-competition/world-winter-games-kazan-2022
 

Þátttakan er aðalatriðið og allir eiga sömu möguleika á verðlaunum.  Hugmyndafræði Special Olympics byggir á gildi umburðarlyndis og jafnræðis þar sem áhersla er á þátttöku, ánægju, einstaklingsmiðaða færni og ekki síst vináttu

Samtökin Special Olympics International (SOI) voru stofnuð af Kennedy fjölskyldunni 1968 og forseti SOI er Timothy Kennedy Shriver. Áhrif Kennedy fjölskyldunnar koma fram í  starfi samtakanna sem hafa náð gífurlegri útbreiðslu. Starfsemin byggist upp á því að skapa einstaklingum með þroskahömlun/stuðningsþarfir, tækifæri til þátttöku í íþróttastarfi þar sem virðing og jafnræði ríkir og allir eru sigurvegarar.  Auk íþróttastarfs stendur SOI fyrir alþjóðaverkefnum sem miða að því að bæta heilsufar, menntun og daglegt líf þessa hóps.  Alþjóðaskrifstofa er í Washington og Evrópuskrifstofa í Brussel og Dublin.   Umfang og glæsileiki  heimsleika Special Olympics líkist helst ólympíumótum en keppnisform er gjörólíkt. Engin lágmörk þarf á leikana og jafnt byrjendur sem lengra komnir taka þátt.

Kíkjum til Kazan