Heimsmeistaramót IPC í skíðaíþróttum sem fara átti fram í Lillehammer í Noregi í febrúar 2021 hefur verið slegið á frest til janúarmánaðar 2022. Ástæða frestunarinnar er óvissa vegna COVID-19 faraldursins.
Til stóð að mótið í febrúar á næsta ári yrði fyrsta heimsmeistaramótið þar sem alpagreinar, skíðaskotfimi, cross-country og snjóbrettakeppni færu fram á sama stað.
Ákvörðunin var tekin af stjórn norska skíðasambandsins í samstarfi við World Para Snow Sports hjá IPC ásamt norsku Ólympíunefndinnni, Paralympicnefndinni og öðrum hlutaðeigandi í Noregi.
Erik Roste forseti norska skíðasambandsins sagði að vissulega yrði margt skíðafólk vonsvikið með niðurstöðuna og þurfa að bíða í heilt ár til viðbótar eftir heimsmeistaramótinu. Hann sagði einnig lengd keppninnar, stærð og umfang við núverandi aðstæður vegna faraldurs COVID-19 gera framkvæmdina gríðarlega flókna og allt að því ómögulega.
Til stóð að skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson frá skíðadeild Víkings myndi keppa fyrir Íslands hönd á mótinu en það þarf þá að bíða betri tíma eða til janúarmánðar 2022 en það sama ár verða Winter-Paralympics í Peking í Kína.
Frétt Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra (IPC) um málið má sjá hér
Mynd/ Hilmar Snær Örvarsson við keppni 2018 á Winter-Paralympic í Suður-Kóreu