Ný reglugerð um takmörkun á samkomum


Ný reglugerð heilbrigðisráðuneytisins um takmörkun á samkomu hefur verið birt. Tekur hún gildi 20. október og gildir til 10. nóvember n.k.


Samkvæmt reglugerðinni er sem fyrr í gildi undanþága utan höfuðborgarsvæðisins fyrir æfingar og keppni í íþróttum sem heimilar snertingu á leikvellinum eða æfingum séu þær nauðsynlegur þáttur í iðkun íþróttarinnar. Hverju sérsambandi ber að setja sér reglur um æfingar og keppni meðan á takmörkununum stendur í samstarfi við ÍSÍ og sóttvarnaryfirvöld. Óheimilt er að hafa áhorfendur á íþróttaviðburðum. ÍF bendir aðildarfélögum sínum á að fylgjast með reglugerðum sérsambanda í tengslum við þær íþróttir sem eru stundaðar innan aðildarfélag ÍF s.s. hjá Sundsambandi Íslands og Frjálsíþróttasambandi Íslands sem og fleirum.

Sérstakt bráðabirgðaákvæði er í gildi til 3. nóvember sem á við um höfuðborgarsvæðið. Samkvæmt bráðabirgðaákvæðinu er íþróttastarf á vegum aðildarfélaga Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem krefst snertingar eða hætta er á snertingu óheimil. Ráðherra getur veitt undanþágu frá banninu fyrir einstaka viðburði, svo sem vegna alþjóðlegra keppnisleikja hér á landi, enda sé gætt fyllstu sóttvarnarráðstafana að öðru leyti.

Í reglugerð um takmörkun á skólastarfi er tilgreint að íþróttastarf fyrir börn á leik- og grunnskólaaldri þar með talið skólasund sem krefst snertingar og frekari blöndunar hópa en í skólastarfi er óheimilt til 3. nóvember.

Nánar á heimasíðu ÍSÍ