Stjórn Íþróttasambands fatlaðra og Boccianefnd ÍF staðfesta að vel athuguðu máli að því miður verður að tilkynna að Íslandsmót í einstaklingskeppni í boccia 2020 fellur niður.
Fyrirhugað var að halda einstaklings- og sveitakeppni saman þar sem sveitakeppni féll niður í vor. Lokagreining tók mið af því að hægt yrði að halda Íslandsmót í einstaklingskeppni sem Suðri hefur undirbúið undanfarið ár. Því miður varð niðurstaða þessi.
Ákvörðun er tekin m.t.t. núgildandi sóttvarnareglna og tilmæla um ábyrgð gagnvart áhættuhópum en tekin er ákvörðun um hvert Íslandsmót m.t.t. fjölda og aðstæðna á og utan keppnisstaða.
Sá möguleiki að fresta mótinu m.t.t. hvernig mál þróast var ekki talinn koma til greina m.a. vegna umfangs Íslandsmótsins í boccia og þess tímaramma sem þarf til formlegs undirbúnings vegna m.a. aðstöðu og aðstoðarfólks. Vonast er til þess að Suðri verði umsjónaraðili mótsins 2021.
Til nánari upplýsinga;
Talið var að hægt yrði að tryggja að sóttvarnarreglum yrði fylgt á keppnisstað með ströngum fjöldatakmörkunum. Aðeins þeir keppendur sem væru skráðir til leiks hverju sinni mættu vera í húsi en aðrir þyrftu að bíða á gististöðum eða á öðrum stöðum skv. tilmælum hvers félags. Veitingar yrðu ekki leyfðar á keppnisstað. Ljóst var að lokahóf hefði fallið niður vegna fjöldatakmarkana og tveggja metra reglunnar.
Utan keppnisstaða hefðu aðstæður verið flóknar og aðildarfélög ÍF höfðu lýst yfir áhyggjum af því að framfylgja eftirliti til að tryggja að sóttvarnarlögum væri fylgt. Nokkur félög höfðu staðfest ákvörðun um að þau myndu ekki taka þátt á mótinu m.t.t. gildandi sóttvarna. Þar var mat félaga að ekki tækist að tryggja eftirlit og umsjón m.t.t. sóttvarnareglna en einnig var talið vega þungt skerðing á félagslega þættinum sem hefur verið mjög stór þáttur s.s. niðurfelling lokahófs og skert samskipti milli keppenda frá mismunandi félögum auk strangra reglna um viðveru á keppnisstað.
Tilmæli til aðildarfélaga ÍF
Þessi ákvörðun getur haft áhrif á keppendur sem hlakkað hafa til að fara á mótið og því er mikilvægt að leita leiða til að annað verkefni taki við. Nokkur félög höfðu rætt möguleika á að gera eitthvað skemmtilegt í stað ferðarinnar á mótið, ef það myndi falla niður. Þeir sem eru með góðar hugmyndir eru hvattir til að kynna sínar hugmyndir fyrir öðrum félögum. Á Facebook-síðu þjálfara og formanna hefur verið rætt um samstarf varðandi æfingar og heimaverkefni. Allt sem skapar ný markmið og vettvang til skemmtilegrar samveru vinnur gegn vanlíðan þeirra sem hlakkað hafa til að fara á mótið.
Fulltrúar boccianefndar ÍF hafa lýst yfir vilja til að aðstoða félög við að setja upp félagsmót eða annað sem tengist framkvæmd móta eða æfinga sé áhugi á því.
ÍF þarf að sækja um leyfi til ÍSÍ/ sóttvarnaryfirvalda vegna keppnisreglna í boccia og verið er að leggja lokafrágang á gátlista ÍF. Það verður kynnt þegar svar berst og mun þá gilda um öll bocciamót.
Upplýsingar varðandi Íslandsmót í lyftingum og borðtennis munu verða sendar næstu daga en verið er að skoða alla þætti varðandi mögulega framkvæmd 2020 með nefndum ÍF, KRAFT og BTÍ.
Með vinsemd og virðingu,
Stjórn og starfsfólk ÍF og boccianefnd ÍF.