Við fráfall Guðbjargar Kristínar Ludvigsdóttur er stórt skarð höggvið í hóp liðsmanna Íþróttasambands fatlaðra. Fyrir rúmum áratug gekk Guðbjörg til liðs við sambandið og tók sér stöðu við hlið föður síns í lækna- og fagráði ÍF þar sem hún af einskærri röggsemi og næmni sinnti “flokkunarmálum” og öðrum störfum sem fulltrúi læknateymis sinnir. Þetta gerði hún ávallt með sínu fallega brosi og faglegu vinnubrögðum, aldrei vandamál eða vesen.
Guðbjörg gegndi einnig störfum liðslæknis sambandsins á Ólympíumóti fatlaðra 2012. Sem betur fer þurfti hún minnst að nýta faglega kunnáttu sína þar en var þess öflugri við að halda þétt utan um hópinn sem þar var, í návígi hver við annan 24 tíma sólahringsins í þrjár vikur. Í svo nánu samneyti koma óhjákvæmilega upp hin ýmsu álitamál um lífsins gang og tilveru. Þá var hún til staðar með sína góðu nærveru, ró og yfirvegun og gaf ráð sem ávallt gögnuðust þeim sem á þurftu að halda.
Nú þegar Guðbjörg hefur kvatt eftir erfið veikindi er þakklæti og söknuður okkur efst í huga - Guðbjörg var kona hrein og bein með stórt hjarta sem hafði mikið að gefa.
Hverfur margt
huganum förlast sýn
þó er bjart
þegar ég minnist þín
Allt er geymt
allt er á vísum stað
engu gleymt
ekket er fullþakkað
(Oddný Kristjánsóttir)
Íþróttasamband fatlaðra sendir fjölskyldu og ástvinum Guðbjargar innilegar samúðarkveðjur.
Fyrir hönd Íþróttasambands fatlaðra
Ólafur Magnússon
Mynd/ Frá Ólympíumóti fatlaðra í London 2012 þar sem Guðbjörg starfaði sem liðslæknir íslenska hópsins. Guðbjörg er fremst hægra megin á myndinni.