Íþróttasamband fatlaðra 41 árs í dag


Íþróttasamband fatlaðra er 41 árs í dag. Sambandið var stofnað þann 17. maí 1979 og fór stofnfundurinn fram að Hótel Loftleiðum.


Í 25 ára afmælisútgáfu ÍF „Stærsti sigurinn" er saga ÍF rakin rækilega en þar segir m.a:

„Stofnfundurinn var haldinn að Hótel Loftleiðum, Gísli Halldórsson forseti ÍSÍ setti fundinn og stjórnaði honum en auk hans sátu fundinn framkvæmdastjórn ÍSÍ og framkvæmdastjóri. Til fundarins voru mættir 22 fulltrúar frá 12 héraðssamböndum auk nokkurra gesta. Stofnaðilar Íþróttasambands fatlaðra eru: Íþróttabandalag Reykjavíkur, Íþróttabandalag Akureyrar, Íþróttabandalag Keflavíkur, Íþróttabandalag Vestmannaeyja, Ungmenna- og íþróttasamband Austurlands, Ungmenna- og íþróttasamband Ólafsfjarðar, Héraðssambandið Skaprhéðinn, Íþróttabandalag Akraness, Íþróttabandalag Siglufjarðar, Héraðssamband S-Þingeyinga, Íþróttabandalag Ísafjarðar og Héraðssamband V-Ísfirðinga."

Umtalsvert vatn hefur runnið til sjávar á síðasta 41 ári og hafa afreksmenn úr röðum fatlaðra borið hróður Íslands víða um lönd. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa og þá er Ísland eitt af fáum löndum þar sem Íþróttasamband fatlaðra fer með bæði afrekshluta og almenningshluta en þannig starfar ÍF sem bæði NPC Iceland og Special Olympics Iceland á erlendum vettvangi.

Stjórn og starfsfólk ÍF vill í tilefni amælisdagsins þakka öllum samstarfsaðilum, velunnurum og sjálfboðaliðum fyrir sín ómetanlegu framlög í gegnum árin.

Fyrir áhugasama er hægt að fylgjast með starfsemi ÍF víða:
Heimasíða ÍF: www.ifsport.is
Facebook-síða ÍF
ÍF á Instagram: https://www.instagram.com/npciceland/ - @npciceland
ÍF á Twitter: @ifsportisl