Íslandsmóti ÍF í boccia, borðtennis og lyftingum frestað um óákveðinn tíma


Stjórn Íþróttasambands fatlaðra í samráði við fagteymi ÍF ákvað í dag að fresta Íslandsmóti ÍF í boccia, borðtennis og lyftingum sem og Íslandsleikum Special Olympics í frjálsum íþróttum sem fara áttu fram helgina 13.-15. mars næstkomandi.


Frestun Íslandsmótanna er vegna Coronaveirunnar (COVID-19) sem nú breiðist hratt út. Embætti ríkislögreglustjóra hefur lýst yfir hættustigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni og embætti landlæknis. Eftir samráðsfund stjórnar og fagteymis ÍF var ákveðið að fresta mótinu í mars um óákveðinn tíma.

Ákvörðun um nýja dagsetningu fyrir Íslandsmót ÍF í boccia, borðtennis og lyftingum sem og Íslandsleikum SO í frjálsum íþróttum liggur ekki fyrir en stjórn og starfsfólk ÍF mun flytja tíðindi af nýjum dagsetningum Íslandsmótanna og Íslandsleikanna eins fljótt og auðið er.

Endanlegar ákvarðanir með önnur verkefni Íþróttasambands fatlaðra hérlendis sem erlendis liggja ekki fyrir að svo stöddu en upplýst verður um stöðu þeirra mála síðar.

Aðildarfélög ÍF geta beint fyrirspurnum sínum til skrifstofu ÍF á if@ifsport.is eða í síma 5144080 en að öðru leyti hvetur ÍF alla til þess að fylgjast grannt með gangi mála á heimasíðu Landlæknisembættisins https://www.landlaeknir.is/koronaveira/