ÍF og SSÍ vinna saman að framþróun sundíþróttarinnar


Íþróttasamband fatlaðra og Sundsamband Íslands undirrituðu nýverið samstarfssamning sín á milli um gagnkvæma skuldbindingu sérsambandanna um framþróun sundíþróttarinnar, sameiginlegt mótahald fatlaðra og ófatlaðra og leitast með því að tryggja sundfólki bestu mögulegu aðstæður.


Þórður Árni Hjaltested formaður Íþróttasambands fatlaðra sagði samninginn mikið fagnaðarefni. „Um árabil hafa fremstu sundmenn úr röðum fatlaðra átt kost á því að keppa hérlendis á mótum ófatlaðra í viðleitni sinni til frekari árangurs. Nú hafa ÍF og SSÍ formfest það samstarf sem og samstarfið á víðtækari sviðum,“ sagði Þórður en rétt eins og síðustu ár mun Íslandsmót ÍF og SSÍ í sundi í 50m laug verða sameiginleg framkvæmd sérsambandanna. Sama fyrirkomulag mun einnig gilda við Íslandsmót í 25m laug en samningurinn sem Þórður Árni og Jón Hjaltason fyrrverandi varaformaður í stjórn SSÍ undirrituðu nýverið gildir út árið 2022.


Björn Sigurðsson formaður SSÍ bætti við. "Það gleður okkur mikið að það góða samstarf sem verið hefur á milli SSÍ og ÍF í tengslum við framþróun sundíþróttarinnnar sé komið í fastar skorður og vonumst við til þess að þetta fyrirkomulag verði sundfólki beggja sérsambanda frekari hvatning til góðra verka í framtíðinni"

Íslandsmeistaramótið í 50m laug fer fram í Laugardalslaug helgina 3-5. apríl nk. ​