Hilmar með silfur í stórsvigi í Jasná


Skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson landaði áðan silfurverðlaunum í stórsvigskeppni í Jasná í Slóvakíu en keppnin er hluti af Evrópumótaröð IPC í alpagreinum.


Hilmar var annar eftir fyrri ferð dagsins á tímanum 50,36 sek. og í seinni ferðinni kom hann í mark á tímanum 51,62 sek. með lokatíma upp á 1:41,98 mín. Slóvakinn og heimamaðurinn Martin France hafði nauman sigur með lokatímann 1:41,25 mín.


Keppt verður í stórsvigi aftur á morgun en á fimmtudag og föstudag verður keppt í svigi.

Úrslit dagsins