"Börn eru gullmolar. Hlutverk hinna fullorðnu er að fá gullið til að glóa"


Ásta Katrín Helgadóttir, íþróttakennari á heilsuleikskólanum Skógarási hlaut Hvataverðlaun IF 2019 eins og áður er komið fram hér á heimasíðu ÍF. Við það tækifæri varpaði hún fram þeirri spurningu, af hverju ekki sé fyrst horft til hreyfiþroska barnsins sem undirstöðu þess að annað nám geti átt sér stað. Hún benti á að snemmtæk íhlutun í námi leikskólabarna hefur aðallega snúið að máli og tali, læsi eða annars konar vitrænum þroska. 

Í innleiðingarstarfi YAP á Íslandi hefur þessi staðreynd blasað við því miður þó undantekning sé þar vissulega á. Nokkrir leikskólar hafa sýnt mikilvægt  frumkvæði og ráðið íþróttafræðing til starfa sem þá þurfa oft  líka að sinna umsjón eða daglegum verkefnum. Dæmi eru um leikskólastjóra sem eru að berjast fyrir því að fá að nýta betur sérfræðiþekkingu íþróttafræðings. Sveitarfélög og ríki þurfa að sýna hug í verki og fylgja eftir stefnu um heilsueflandi leikskóla og heilsueflandi samfélög með þvi að styðja við leikskólastjóra sem vilja efla þennan þátt. Heilsuleikskólinn Skógarás hefur innleitt YAP verkefnið á athyglisverðan hátt með frábærum árangri og ÍF óskar Ástu Katrínu, Þóru Sigrúnu skólastjóra og öðru starfsfólki til hamingju með mikilvægt starf í þágu allra barna.

Hér má lesa ræðu Ástu Katrínar

Ég vil byrja á að þakka þá miklu viðurkenningu sem YAP – verkefnið hefur fengið með þessum hvatningarverðlaunum Íþróttasambands fatlaðra og það traust sem okkur á Heilsuleikskólanum Skógarás var sýnt með því að hafa fengið að vera brautryðjendur í þessu frábæra verkefni sem YAP – ið er. 
Heilbrigði og velferð íslenskra barna og ungmenna á Íslandi er eitt mikilvægasta verkefni samfélagsins í mjög svo víðu samhengi. 
Umræðan  undanfarnar vikur endurspeglar mikilvægi þess að verkefni eins og YAP-ið fái verðskuldaða athygli, eftirtekt og skilning.  
Að sama skapi virðist nútímasamfélag almennt ekki tengja saman hreyfiþroska og vitrænanþroska. Það að barn geti lært að lesa, lesið sér til gangs eða til að annað nám geti átt sér stað, er byggt á hreyfiþroska og því að  barnið hafi farið í gegnum ákveðin hreyfiþroskaferil allt frá fæðingu.  
Umræðan um snemmtæka íhlutun í námi leikskólabarna hefur fyrst og fremst snúið að máli og tali, læsi eða annars konar vitrænum þroska.  
Af hverju er ekki horft fyrst til hreyfiþroska barnsins sem undirstöðu til þess að annað nám geti átt sér stað.  
Dagleg, markviss hreyfing leikskólabarna  gegnir lykilhlutverki fyrir andlega, líkamlega og félagslega vellíðan og er þeim nauðsynleg fyrir eðlilegan vöxt og þroska.  
Dagleg, markviss hreyfing er einnig til þess fallin að venja börn strax í barnæsku við heilbrigða lífshætti með það í huga að þeir verði hluti af lífsstíl þeirra til framtíðar. 
Börn eru gullmolar. Hlutverk hinna fullorðnu er að fá gullið til að  glóa.