Kynningardagur YAP á Vestfjörðum 19. nóvember Snemmtæk íhlutun og markviss hreyfiþjálfun


Kynningardagur YAP (Young Athlete project) verður á Vestfjörðum 19. nóvember. Kynningin fer fram í leikskólanum  Glaðheimum, Bolungarvík frá kl. 13.00 - 15.00. YAP verkefnið er alþjóðlegt verkefni á vegum Special Olympics samtakanna og markmið er að stuðla að markvissri hreyfiþjálfun barna, ekki síst barna með frávik. Verkefnið hefur verið innleitt á Íslandi frá árinu 2015 þar sem hefur verið lögð sérstök áhersla á samstarf við leikskóla. Heilsuleikskólinn Skógarás Ásbrú hefur verið leiðandi í samstarfsverkefninu og gert rannsóknir á áhrifum innleiðingar YAP verkefnisins. Háskólinn í Boston var samstarfsaðili SOI um uppsetningu æfinga og árangursmælinga. Frítt aðgengi er að öllu efni YAP

Kynningardagur YAP byggir á verklegri kynningu undir stjórn Ástu Katrínar Helgadóttur, íþróttakennara á heilsuleikskólanum Skógarási Ásbrú. Hún hefur þróað YAP verkefnið og aðlagað í sínu starfi sem íþróttakennari en einnig er mikil samvinna við leikskólakennara sem tengja efnið við dagleg verkefni.  Á Skógarási er YAP verkefnið fyrir alla nemendur en sérstakur markhópur eru nemendur  með slaka hreyfifærni, hegðunarvandkvæði, vanvirkni eða óöryggi og tvítyngdir nemendur. Þóra Sigrún Hjaltadóttir leikskólastjóri á Skógarási hefur frá 2015 sýnt verkefninu mikinn áhuga og stuðning sem er forsenda innleiðingar. Niðurstaða rannsókna þar sýna miklar framfarir nemenda á sviði hreyfifærni og  félagslegra samskipta. Einnig hafa niðurstöður sýnt aukna vellíðan, sjálfsöryggi, gleði, sjálfsstjórn og tjáningu.Í innleiðingarferlinu hefur komið á ljós hve staðan er mismunandi varðandi aðgengi leikskólabarna að markvissri hreyfiþjálfun. Fyrir öll börn en sérstaklega börn með frávik er snemmtæk íhlutun á þessu sviði gífurlega mikilvæg og getur haft áhrif til framtíðar.  Auk verklegrar kynningar á kynningardegi YAP mun Þóra Sigrún kynna starfið í Skógarási og Anna Karólína Vilhjálmsdóttir, framkvæmdastjóri SO á Íslandi kynnir verkefnið á heimsvísu og innleiðingarferli YAP á Íslandi.