Ísland sat 30 ára afmælis- og aðalfund IPC í Bonn


Aðalfundur Alþjóðaólympíuhreyfingar fatlaðra (IPC) fór fram í Bonn í Þýskalandi í lok októbermánaðar. Fulltrúar Íslands við fundinn voru Þórður Árni Hjaltested formaður ÍF og Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri fjármála- og afrekssviðs ÍF.


Íþróttasambönd fatlaðra á Norðurlöndum hafa um árabil unnið vel saman á alþjóðavettvangi og á því var engin breyting nú þar sem fulltrúar Norðurlandaþjóðanna komu saman til skrafs og ráðagerða í aðdraganda aðalfundarins. Samstarf Norðurlandanna er fjölbreytt og er m.a. með fulltyngi Evrópusambandsins í #AllIn verkefninu.


Þá var Jón Björn Ólafsson íþrótta- og fjölmiðlafulltrúi ÍF viðstaddur markaðs- og fjölmiðlaráðstefnu í aðdraganda aðalfundarins en IPC hefur allt frá Paralympics 2012 sótt verulega í sig veðrið í alþjóðlegri markaðssetningu á íþróttum fatlaðra.


Á aðalfundi IPC voru fjögur ný lönd vígð inn sem NPC (National Paralympic Committee) en það voru Kiribatí, Maldív eyjar, Malta og Paragvæ. Þar með eru aðildarlönd IPC orðin 205 talsins og starfandi NPC alls 182.


Mynd/ Fulltrúar Norðurlandanna á aðalfundi IPC í Bonn í októbermánuði.