Heimsmeistaramót fatlaðra í frjálsum íþróttum fer fram í Dubai dagana 7.-15. nóvember næstkomandi. Um er að ræða síðasta stórmót ársins þar sem gert er ráð fyrir um það bil 1000 keppendum en nú renna einmitt öll vötn til Tokyo þar sem Paralympics fara fram á næsta ári og íþróttafólkið í óðaönn við að tryggja sér farseðilinn til Japan.
Ifsport.is mun á næstu dögum birta stutt spjall við þá þrjá fulltrúa sem keppa munu fyrir Íslands hönd í Dubai og við hefjum leik á Huldu Sigurjónsdóttur kúluvarpara frá Ármanni sem keppir í flokki F20.
Hvernig hefur undirbúningurinn fyrir HM gengið?
Hann hefur almennt gengið mjög vel og ég er í mínu besta formi, hef síðustu ár keppt mikið og bætt mig, bæði erlendis og hér heima. Ég mæti á æfingar kvölds og morgna. Ég er að æfa 18-24 tíma á viku. Ég er að lyfta mikið og kasta, ásamt því að hafa undanfarið lagt áherslu á að vinna með andlegu hliðina og fara í nudd og slökun á móti öllum hamaganginum. Ég er nýkomin heim frá Ástralíu þar sem ég var að keppa á INAS Global Games og er mjög ánægð með árangurinn og það var gríðarlega góður undirbúningur fyrir þetta mót. Ég stoppa því stutt heima, tek djúpt andann og safna krafti til að vera klár í slaginn.
Með þátttökunni í Dubai, hvað ert þú þá búin að taka þátt í mörgum alþjóðlegum stórmótum?
Ég hef keppt á þrem Evrópumótum og einu INAS móti.
Þú keppir í kúlu í Dubai, hvernig líst þér á keppnina, Íslandsmet í uppsiglingu?
Ég er mjög spennt og eins og ég tók fram áðan, er ég í mínu besta formi og því á ég mikla möguleika og vona það besta og geri mitt besta.
Hver er fremsti kúluvarparinn í kvennaflokki F20 í dag?
Hún heitir Sabrina Fortune og er bresk, metið hennar er 13,70 það sem af er liðið þessu ári. Við megum búast við því að keppinautar hennar sæki vel að henni og þetta verði nokkuð jöfn keppni.
Hvernig líst þér á möguleika hinna keppendanna, Bergrúnar og Stefaníu?
Bergrún á eftir að ná frábærum árangri í sínum greinum þar sem hún er í frábæru formi og Stefanía ekki síðri og kemur sterk inn í þetta mót. Ég er mjög spennt að keppa og fylgjast með þessum flottu keppendum.
Mótið verður sýnt í beinni útsendingu á Paralympic TV
Hér má nálgast heimasíðu HM í Dubai
Tengt efni:
Þrjár frjálsíþróttakonur á leið á HM í Dubai
Mynd/ Jón Björn - Hulda í kúluvarpi á EM í Berlín sumarið 2018.