Sundmaðurinn Róbert Ísak Jónsson sem keppir í flokki S14 (þroskahamlaðir) hefur verið tilnefndur til verðlaunanna „Framúrskarandi ungir Íslendingar.“ Verðlaunin eru veitt af JCI hreyfingunni á Íslandi en verðlaunin verða veitt við hátíðlega athöfn þann 4. september næstkomandi. Í fréttatilkynningu á heimasíðu JCI segir m.a.
Þetta árið bárust hátt í tvö hundruð tilnefningar frá almenningi í gegnum herferð sem sett var í gang á samfélagsmiðlum ásamt því að nokkrir fjölmiðlar greindu frá því að JCI væri að leita af tilnefningum.
Dómnefnd skipaði Áslaug Arna alþingiskona, Rakel Garðarsdóttir hjá Vakandi, Fanney Þórisdóttir landsforseti JCI, Jón Atli rektor Háskóla Íslands og Eyþór K. Einarsson umdæmisstjóri hjá Kiwanis. Saman fengu þau þá miklu áskorun að fara í gegnum tilnefningarnar og velja úr þeim tíu framúrskarandi unga einstaklinga.
Á heimasíðu JCI sem nálgast má hér er hægt að sjá allar tilnefningar.
Íþróttasamband fatlaðra óskar Róberti innilega til hamingju með útnefninguna en hann er á meðal fremstu sundmanna heims í flokki S14.