Ísland á HM í sundi: Már Gunnarsson


Már Gunnarsson er á leið á sitt fjórða stórmót þegar hann keppir fyrir Íslands hönd á heimsmeistaramóti fatlaðra í sundi sem fram fer í London í næsta mánuði. Már syndir fyrir ÍRB í Reykjanesbæ en hann keppir í flokki S11 sem er flokkur alblindra.


Með þátttöku þinni í London, hvað verður þú þá búinn að taka þátt í mörgum stórmótum á borð við HM og EM?
Ef þetta HM er meðtalið þá er þetta fjórða stórmótið mitt, ég hef keppt á tveimur Evrópumeistaramótum og einu heimsmeistaramóti.

Í ár varst þú flokkaður úr S12 flokki í S11 flokk. Getur þú skýrt út fyrir fólki í hverju munurinn felst og hverju það breytir fyrir þig sem sundmann.
Ég er s.s. með augnhrörnunarsjúkdóm sem farið hefur versnandi síðan ég fæddist. Ég var því í ár flokkaður niður í S11 þar sem eru alblindir keppendur eða þeir sem sjá nánast ekki neitt. Ég myndi segja að það breytti ekki neinu fyrir mig sundlega séð en það er munur á þessum flokkum. S11 eru alblindir og S12 er meiri sjón og svo S13 eru keppendur sem geta nánast ekið bíl. Í flokki S11 er skylda að hafa „tappara“ fyrir snúningana en það er ekki skylda um það í hinum tveimur flokkunum. Sumir í þeim flokkum nota tappara en það eru fáir. Í flokki S11 er svo skylda að nota alskyggð gleraugu. (insk.blm: Tappari er s.s. starfsmaður á bakka sem notar stöng til þess að tilkynna sundmanni um hvenær eigi að framkvæma snúning).


Þú ert skráður til keppni í sex greinum á HM. Hver þeirra er þín sterkasta grein?
Mínar sterkustu greinar eru 100m baksund, 400 skriðsund og 200m fjórsund.


Hver myndir þú segja að væri sterkasti S11 sundmaður heims um þessar mundir?
Ég tel mig vera hraðasta blinda sundmann í heimi!


Hvernig líst þér á möguleika annarra íslenskra sundmanna í London?
Ég er mjög spenntur fyrir þessu móti og held að þetta verði geggjað og ég stend í þeirri trú um að félagar mínir muni koma á óvart og mikið verði um bætingar. Landsliðshópurinn hefur verið á fullu í allt sumar og í stuttu máli á ég von á því að þetta verði rosalegt.

Ísland á HM í sundi: Sonja Sigurðardóttir
Ísland á HM í sundi: Hjörtur Már Ingvarsson