Opna ítalska meistaramótið í frjálsum íþróttum fór fram í Grosseto á Ítalíu á dögunum. Tvö ný Íslandsmet litu dagsins ljós en Ísland átti þrjá fulltrúa á mótinu sem voru þær Hulda Sigurjónsdóttir, Ármann, Stefanía Daney Guðmundsdóttir Eik/KFA og Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir, ÍR.
Bergrún keppti í nokkrum greinum, varpaði 3kg kúlu 7,91m, stökk 4,03m í langstökki, hljóp 100m á 15,35sek og 200m á 32,61 sek. Hulda bætti árangur sinn í kúluvarpi og þar með Íslandsmetið um 2 cm í 10,28m. Stefanía Daney leggur áherslu á langstökk þar sem hún er greinilega nálægt bætingu, stökk núna 4,77m. Hún skellti sér líka í 400m og bætti Íslandsmet sitt um rúmar 2 sek, hljóp á 66,16 sek en átti 68,30 sek.
Stöllurnar þrjár eru núna komnar yfir til Pisa frá Grosseto þar sem þær eru í æfingabúðum til 16. júní með Paralympic-hópi Íþróttasambands fatlaðra.
Mynd/ Kári Jónsson - Hulda setti nýtt Íslandsmet í kúluvarpi en hún keppir í flokki F20 (þroskahamlaðir)