Í dag hefjast íþrótta- og ævintýrabúðir Íþróttasambands fatlaðra en búðirnar munu fara fram að Laugarvatni næstu daga. Þetta er í fyrsta sinn sem ÍF stendur að viðlíka búðum en tæplega 20 ungmenni voru skráð í búðirnar.
Linda Kristinsdóttir og Halldór Sævar Guðbergsson stjórnarmenn ÍF tóku á móti ungmennunum í Laugardal í hádeginu en þaðan lá leiðin austur fyrir fjall. Búðirnar eru fyrir börn fædd 2005-2009 þar sem áherslan verður á margskonar íþróttagreinar s.s. sund, frjálsar og boltagreinar og svo auðvitað öll þau ævintýri sem Laugarvatn hefur upp á að bjóða.
Þegar búðunum lýkur að Laugarvatni taka við Sumarbúðir ÍF sem hafa verið óhemju vinsælar síðustu þrjá áratugi en við sumarbúðirnar kemur nokkuð eldri hópur en sá er nú er við íþrótta- og ævintýrabúðirnar. Þetta þýðir að ÍF heldur úti tveimur stórum verkefnum að Laugarvatni ár hvert í samfellt þrjár vikur og því verður nóg við að vera á Laugarvatni næstu vikurnar.