Kveðjustund - Magnús Helgi Ólafsson sjúkraþjálfari


Mikill vinur okkar hjá ÍF, Magnús Helgi Ólafsson, sjúkraþjálfari lést 20. maí 2019 eftir erfið veikindi. Útförin  fer fram í Grafarvogskirkju mánudaginn 27. maí kl. 15.00


Það er óhætt að fullyrða að hugmyndir hans í gegnum árin hafi orðið að fjölbreyttum verkefnum þar sem sköpuð voru ný tækifæri í íþróttastarfi fatlaðra.  Lífsganga Magnúsar Helga Ólafssonar hefur sannarlega haft mikil  og jákvæð áhrif á samfélagið og gefið mörgum margt. Að láta gott af sér leiða er mikilvægt í lífinu. Við erum mörg sem eigum Magnúsi Helga Ólafssyni mikið að þakka og íþróttahreyfing fatlaðra kveður ómetanlegan liðsmann.


Á 40 ára afmælisári Íþróttasambands fatlaðra 2019 var leitast við að ná til þeirra sem ruddu brautina og hófu vegferð íþrótta fatlaðra á Íslandi. Einn af þeim sem þar fór fremstur í flokki var var vinur okkar  Magnús Helgi Ólafsson, sjúkraþjálfari. Það er mikilvægt í dag að eiga til viðtöl sem tekin voru nýlega þar sem hann sagði söguna og hvatti okkur jafnframt til að halda starfinu áfram og vinna betur að því í gegnum íþróttastarfið að rjúfa félagslega einsemd og einangrun.


Árið 1974 fór Magnús að heimsækja Norðurlöndin og England þar sem hann var í tvo og hálfan mánuð til að kynna sér íþróttastarf fatlaðra, þýða reglur og kynna sér áhöld og tækjabúnað. Við komu til  Íslands hóf hann að kynna boccia, bogfimi og curling og á þessum tíma voru stofnuð fyrstu íþróttafélög fatlaðra á Íslandi. Hann var með kynningar um allt land og m.a. árið 1981 fyrir nemendur  Íþróttakennaraskóla Íslands sem hafði örlagarík áhrir á núverandi  framkvæmdastjóra þróunarsviðs ÍF. Magnús kom að kynningarstarfi ÍF í fjölda ára og var alla tíð boðinn og búinn að aðstoða við útbreiðslu íþrótta fatlaðra, dómgæslu á mótum og önnur verkefni  ÍF.


Fyrir tveimur árum kom hann á skrifstofu ÍF til að leita samstarfs við að kynna boccia fyrir eldri borgurum í Grafarvogi og það leið ekki á löngu þar til hann var búin að setja á fót bocciaæfingar fyrir eldri borgara í Spönginni, Grafarvogi. Þetta starf þróaðist hratt og veikindi höfðu ekki áhrif á eldmóð hans í útbreiðslustarfinu sem hann sinnti af miklum áhuga þar til krafta þraut. 


Í huga okkar er þakklæti fyrir góða vináttu og einstakt samstarf. 


Innilegar samúðarkveðjur til fjölskyldunnar