Íslandsleikar Special Olympics í frjálsum íþróttum fara fram í Kaplakrika föstudaginn 5. apríl og marka þannig ásamt Íslandsmóti ÍF og SSÍ í sundi upphaf Íslandsmótahelgar ÍF 2019.
ÍF og Frjálsíþróttasamband Íslands hafa þegar unnið saman að framkvæmd Íslandsmóts ÍF í frjálsum innanhúss en mótið fór fram í febrúarmánuði og tókst afar vel til.
Íslandsleikar SO í frjálsum innanhúss er góð viðbót við annars stóra Íslandsmótahelgi og tryggir enn ríkari þátttöku fatlaðra við helgina stóru sem lýkur svo með glæsilegu Lokahófi í Gullhömrum sunnudagskvöldið 7. apríl.
Á Íslandsleikunum verður keppt í 60m hlaupi, langstökki og kúluvarpi og gengu skráningar vel. Í anda Special Olympics fá alir þátttakendur viðurkenningu fyrir sinn árangur á mótinu og er gaman að segja frá því að fjölbreyttur hópur skráði sig til leiks þetta árið, sá elsti 65 ára en sá yngsti 16 ára. Frjálsíþróttanefnd ÍF hefur haft veg og vanda að undirbúningi mótsins og vonast Íþróttasamband fatlaðra til þess að mótið stuðli að því að jafnvel enn fleiri skrái sig til keppni á næstu árum.
Sjá mótaskrá Íslandsleika SO 2019