Glæsilegum heimsleikum Special Olympics er nýlokið í Abu Dahbi og íslenski hópurinn kominn heim sæll og glaður eftir frækna frammistöðu ytra. Verkefninu er hvergi nærri lokið því um páskana verða tveir þættir „Með okkar augum“ tileinkaðir þátttöku Íslands í leikunum.
Í aðdraganda heimsleikanna gerðu Íþróttasamband fatlaðra og SERES hugverksmiðja með sér samstarfssamning um þáttagerðina en um er að ræða tvo 25 mínútna langa þætti sem áætlað er að sýndir verði á RÚV. Hinir góðkunnu liðsmenn þáttarins „Með okkar augum“ gerðu víðreist í Abu Dahbi ásamt tökuliði og verður afar spennandi að sjá afraksturinn yfir páskahátíðina.
Mynd/ JBÓ - Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri afreks- og fjármálasviðs ÍF ásamt Elínu Sveinsdóttur frá SERES Hugverksmiðju við undirritun samninga vegna þáttagerðarinnar.