Glæsileg setningarathöfn í Abu Dahbi


Setningarathöfn heimsleika Special Olympics í lok síðustu viku var glæsileg en þar gengu inn á völlinn i Zayed Sport City í Abu Dhabi 192 þjóðir. Innganga tók mið af vinabæjum landa í stafrófsröð og var Ísland eitt af fyrstu löndum til að ganga inn.


Íslendingar rétt náðu að komast tímanlega í inngönguna eftir smá auka bílferð en það reyndi mikið a skipuleggjendur ferða til og frá svæðinu. Daði Þorkelsson var i alþjóðlegum hópi lögreglumanna sem hljóp kyndilhlaup með eld leikanna „loga vonarinnar“ en einnig tóku Special Olympics iðkendur víða að úr heiminum þátt í hlaupinu. Lögreglumennirnir gengu fylktu liði eftir vellinum áður en kyndilhlaup hófst og stóðu heiðursvörð þegar lokahluti kyndilhlaupsins fór fram en það var íþróttafólk sem tók við kyndlinum síðasta hluta leiðarinnar og kveikti eld leikanna.


Sheikh Mohamed bin Zayed, Crown Prince of Abu Dhabi sem setti leikana en auk hans voru nokkur ávörp m.a. frá íþróttafólki og Tim Kennedy Shriver sem nú leiðir Special Oiympics samtökin. Eins og ávallt var heiðruð minning Eunice Kennedy Shriver sem stofnaði samtökin 1968. Rauður þráður hátíðarinnar var framsetning á íþróttagreinum, myndbönd og leikin atriði þar sem íþróttafólk frá Special Olympics og heimsmeistarar í ákveðnum greinum s.s. hlaupum, körfubolta og lyftingum mynduðu saman lið og sýndu listir sínar en þessi framsetning átti að minna á fjölbreytileikann og hve mikilvægt það er að vinna saman.


Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra og Kolbrún Ingólfsdóttir, fulltrúi Samherja, aðalstyrktaraðila ÍF gengu inn með íslenska hópnum ásamt formanni IF, Þórði Árna Hjaltested.


Næstu daga verður keppni haldið áfram en íslenski hópurinn býr og keppir á mismunandi stöðum, bæði Abu Dhabi og Dubai. Alls eru um 90 aðstandendur keppenda að fylgjast með leikunum og alls eru  því um 150 Íslendingar í Abu Dhabi og Dubai vegna leikanna.


Eins og áður gegna sjálfboðaliðar lykilhlutverki á leikunum en þeir koma víða að úr heiminum m.a. fagfólk heilbrigðisstétta sem vinnur að Healthy Athlete verkefninu. Aðstoðarfólk Íslands eru tvær konur, Lily frá Kína sem býr í Dubai og Vanja sem kemur frá Indonesíu til að aðstoða við leikana.  Íslenski hópurinn býr að mjög reyndum og góðum þjálfurum sem halda vel utan um sína keppendur og allt hefur gengið mjög vel, jafnt innan sem utan keppnissvæða. Lokahátíð er 21. mars og hópurinn kemur heim 22. mars.

Myndband frá opnunarhátíð SO:


Mynd/ Íslenski hópurinn skemmti sér vel við opnunarhátíð Special Olympics