Íslenski hópurinn kominn til Abu Dhabi eftir vinabæjarheimsókn


Það er óhætt að fullyrða að fyrstu dagar Íslendinga í Sameinuðu Arabísku Furstadæmunum hafi skapað góðar minningar en íbúar Fujairah, vinabæjar Íslands tóku mjog  vel á móti hópnum. Eftir góða slökun fyrsta daginn eftir langt ferðalag tók við fjölbreytt dagskrá sem heimamenn tóku virkan þátt í. Kynntir voru hefðbundnir leikir, listir, handverk, matargerð og sögulegir staðir í Fujairah.


Farið var í heimsókn í barnaskóla þar sem börnin höfðu æft margvísleg atriði til að sýna gestunum. Það var greinilegt að mikið hafði verið lagt í undirbúning og markmið að gestirnir fengju að upplifa sem mest þá daga sem vinabæjarprógrammið stóð yfir. Ásamt Íslandi voru í Fujairah, Noregur, Svíþóð, Færeyjar, Nepal, Myanmar, Kongó, Lichteinstein, Macau,  Serendid og Moldova. Tilgangur vinabæjarverkefnisins er að þátttakendur á heimsleikum Special Olympics fái að kynnast lífi íbúa í því landi sem heldur leikanna. Þessi hugmynd sem var fyrst framkvæmd fyrir heimsleikana í Írlandi árið 2003 hefur náð að festa sig í sessi og er orðinn fastur þáttur í skipulagi heimsleika Special Olympics.

Nú er íslenski hópurinn að koma sér fyrir á hótelum í Abu Dhabi og Dubai. Íslendingar eru á þremur hótelum í Abu Dhabi, öll nálægt keppnisstöðum. Boccia,fimleika- lyftinga-og badmintonkeppendur eru saman á hóteli, einnig knattspyrnu og keiluhópurinn. Golfkeppendur eru sér, nálægt golfvellinum og sund og frjálsíþróttakeppendur eru saman á glæsilegu hóteli í Dubai. Nú taka við fundir þjálfara, æfingar og  undankeppni til að meta styrkleika keppenda fyrir röðun í úrslitariðla. Í fyrsta skipti verður keppt í riðlum í sundi og frjálsum sem miða við uppgefna tíma fyrir leikana en áður hefur alltaf verið undankeppni í öllum greinum.

Allir eru mjög vel stemmdir, tilbúnir í keppnina framundan og reynslunni ríkari eftir skemmtilega samverudaga í Fujairah.