Nýárssundmót Íþróttasambands fatlaðra


Hið árlega Nýárssundmót fatlaðra barna og unglinga fer fram í Laugardalslaug þann 5. janúar næstkomandi. Upphitun hefst kl. 14:00 og keppni kl. 15:00. Heiðursgestur við mótið þetta árið er hr. Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra.


Í ár verður nýtt nafn letrað á Sjómannabikarinn þar sem Róbert Ísak Jónsson var sigurvegari mótsins síðastliðin þrjú ár. Róbert mun fá afhentan eignarbikar fyrir afrekið en Sjómannabikarinn mun halda áfram að ganga manna í millum. Bikarinn gaf Sigmar Ólason sjómaður frá Reyðarfirði árið 1984 og er bikarinn því afhentur í ár í þrítugasta og sjötta sinn.


Allir velkomnir á mótið þar sem sundiðkendur 17 ára og yngri úr röðum fatlaðra leiða saman hesta sína.

Mynd/ Frá Nýársmóti ÍF 2016 þegar Róbert Ísak Jónsson vann Sjómannabikarinn í fyrsta sinn. Hann vann mótið líka 2017 og 2018 en er nú kominn á aldur og því ekki gjaldgengur við mótið.