Heilsuleikskólinn Garðasel, Akranesi hefur verið að þróa YAP verkefnið undanfarna mánuði í samstarfi við ÍF og þar er nú boðið upp á hreyfiþjálfun YAP á hverjum degi í umsjá íþróttafræðings. Ásta Katrín Helgadóttir og Anna Karólína Vilhjálmsdóttur heimsóttu Akranes þann 8. nóvember og kynntu alþjóðaverkefni YAP fyrir starfsfólki leik og grunnskóla. Ingunn Ríkharðsdóttir leikskólastjóri og Breki íþróttafræðingur í heilsuleikskólanum Garðaseli sögðu frá því hvernig YAP hreyfiþjálfunarverkefnið hefði verið innleitt í Garðasel. Það var mjög ánægjulegt að hlusta á þau og vonast er eftir samstarfi við fleiri leikskóla þar auk fyrstu bekkja grunnskóla. Á Special Olympics ráðstefnunni á laugardag verður YAP verkefnið kynnt og sagt frá áhrifum þess á börn sem tekið hafa þátt í heilsuleikskólanum Háaleiti Ásbrú. Verkefnið er fyrir 2 - 7 ára börn og byggir á áhrifum snemmtækrar íhlutunar á sviði hreyfifærni og mikilvægi þess að öll börn fái næga hreyfiþjálfun. Jaðaráhrif YAP hafa sýnt jákvæðan árangur varðandi málþroska, félagsfærni og aðra þætti daglegs lífs.
Föstudagur. 09 nóvember 2018