Brons hjá Helga og Jón Margeir í úrslit


Annar keppnisdagur Evrópumeistaramóts fatlaðra stendur nú yfir og þrír íslenskir keppendur létu til sín taka í dag þar sem Helgi Sveinsson vann til bronsverðlauna í spjótkasti. Hulda Sigurjónsdóttir hafnaði í 7. sæti í kúluvarpi og hlauparinn Jón Margeir Sverrisson nældi sér í farmiða í úrslit í 400m hlaupi á sínu fyrsta Evrópumeistaramóti í frjálsum íþróttum.


Helgi Sveinsson vann til bronsverðlauna í spjótkasti í dag þegar hann kastaði lengst 51.51 meter. Helgi sem var ríkjandi Evrópumeistari í greininni síðastliðin tvö mót varð því að láta titilinn af hendi að þessu sinni. Ifsport.is ræddi við Helga að lokinni keppni en hann fer í aðgerð á olnboga núna í septembermánuði vegna meiðsla sem hafa hrjáð hann þetta tímabilið (sjá viðtalið við Helga hér að neðan).


Lengsta kast Helga í keppninni var eins og áður segir 51.51 meter sem er mótsmet í flokki Helga (F63) þar sem flokkurinn er nýtilkominn hjá IPC en áður keppti Helgi í flokki F42 en með breyttu landslagi í flokkunarmálum hjá Alþjóðaólympíuhreyfingu fatlaðra er nýtt flokksnúmer Helga F63.


Helgi var eini keppandinn í fötlunarflokki F63 (aflimun ofan hnés) en sigurvegarinn Tony Falelavaki frá Frakklandi er í flokki 44 (aflimun eða skert færni neðan hnés) varð sigurvegari með kasti upp á 54.76 metra. Þá hafnaði Úkraínumaðurinn Roman Novak í 2. sæti með kasti upp á 52.29 metra.


Kastsería Helga í dag: 51.25m - 48.89m - x - 48.94m - 51.51m og 49.90m.



Hulda Sigurjónsdóttir varð sjöunda í kúluvarpi F20 kvenna (þroskahamlaðir) þegar hún varpaði kúlunni 9.40 metra en kastsería Huldu í dag var 8.74m - 9.18m - 9.40m - x - 8.89m og 9.25m. Sigurvegari í kúluvarpinu var hin breska Sabrina Fortune sem kastaði lengst 13.30m og hin pólska Ewa Durska varð önnur með 12.93m og bronsverðlaunin fóru til úkraínu þar sem Anastasiia Mysnyk kastaði 12.46m.



Þá komst Jón Margeir Sverrisson í úrslit í 400m hlaupi T20 (þroskahamlaðir) á tímanum 57.29 sek. sem er alveg við hans besta tíma. Jón var áttundi inn í úrslit en hraðastur í undanrásum var Ítalinn Raffaele di Maggio á 52.09 sek. Úrslitin hjá Jóni fara fram á morgun 22. ágúst og hefjast kl. 17.53 að staðartíma eða kl. 15.53 að íslenskum tíma.

Hér að neðan er rætt við Huldu og Helga að lokinni keppni í dag:


 



Myndir/Viðtöl: Jón Björn Ólafsson