Tvenn silfurverðlaun og tíu Íslandsmet í Dublin!


Ísland hefur lokið þátttöku á Evrópumeistaramóti fatlaðra sem staðið hefur yfir síðastliðna viku í Dublin á Írlandi. Afraksturinn eru tvenn silfurverðlaun og tíu Íslandsmet. Fjarðarliðinn Róbert Ísak Jónsson vann í kvöld til silfurverðlauna í 200m fjórsundi og í gær í 100m flugsundi. og er því væntanlegur heim til Íslands á morgun með tvö ný Íslandsmet og tvenn silfurverðlaun í farteskinu.


Róbert Ísak Jónsson, Fjörður, landaði siflurverðlaunum í 200m fjórsundi í kvöld og það gerði hann á nýju og glæsilegu Íslandsmeti! Róbert kom þriðji í bakkann en Hollendingurinn Marc Evers sem kom annar í bakkann var dæmdur ógildur og því færðist Róbert upp í annað sætið með tímann 2:14.16 mín. sem er bæting um tæpa sekúndu því fyrra met hans var 2:15.07 mín. svo það er nokkuð ljóst að þessi öflugi Hafnfirðingur er í stöðugri bætingu. Það var svo Úkraínumaðurinn Vasyl Krainyk sem stal senunni og hreppti gullið með sigurtímann 2:12.72 mín. Róbert Ísak kveður því Dublin með tvö ný Íslandsmet í farteskinu!


Sonja Sigurðardóttir, ÍFR, hafnaði í 5. sæti í úrslitum í 50m baksundi í kvöld á tímanum 1:03.23 mín. sem er bæting frá undanrásum í morgun þar sem hún synti á 1:03.81 mín. Íslandsmet Sonju frá Ríó 2016 stendur því enn óhaggað sem er 59.97 sek. Það var svo hin gríska Alexandra Stamatopoulou sem varð Evrópumeistari á tímanum 53.29 sek.


Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR, lauk í kvöld keppni á EM í Dublin þegar hún hafnaði í 8. sæti í 100m skriðsundi í flokki S6 (hreyfihamlaðir). Thelma sem í undanrásum synti á 1:24.08 mín. kom í kvöld í bakkann á 1:23.90 mín. sem er naum bæting úr úrslitum svo Íslandsmet hennar í greininni heldur enn velli en það er 1:23.22 mín. Hin úkraínska Mereshko varð svo Evrópumeistari í greininni á 1:11.51 mín.


Íslandsmet í Dublin:


Már Gunnarsson - ÍRB - 400m skriðsund S12 - 4:52.04 mín.
Hjörtur Már Ingvarsson - Fjörður - 50m baksund S5 - 49.88 sek.
Sonja Sigurðardóttir - ÍFR - 50m skriðsund S4 - 1:00.67 mín.
Már Gunnarsson - ÍRB - 50m skriðsund S12 - 29.61 sek. (jöfnun Íslandsmets)
Már Gunnarsson - ÍRB - 100m baksund S12 - 1:11.73 mín.
Már Gunnarsson - ÍRB - 200m fjórsund S12 - 2:36.35 mín
Thelma Björg Björnsdóttir - ÍFR - 400m skriðsund S6 - 5:58.59 mín.
Már Gunnarsson - ÍRB - 100m skriðsund S12 - 1:04.41 mín.
Róbert Ísak Jónsson - Fjörður - 100m flugsund S14 - 59.61 sek.
Róbert Ísak Jónsson - Fjörður - 200m fjórsund S14 - 2:14.16 mín.


Mynd/ Jón Björn Ólafsson - Róbert Ísak Jónsson að loknu 200m fjórsundi í Dublin í kvöld.