Róbert Ísak Jónsson var rétt í þessu að landa silfurverðlaunum í 100m flugsundi S14 (þroskahamlaðir) á Evrópumeistaramótinu í Dublin. Silfurverðlaunin komu á nýju og glæsilegu Íslandsmeti þegar Róbert varð fyrstur Íslendinga í flokki þroskahamlaðra til þessa synda 100m flugsund undir einni mínútu en gamla Íslandsmetið var í eigu Jóns Margeirs Sverrissonar og var 1:00.17 mín.
Róbert var annar í undanrásum í dag inn í úrslitin á tímanum 1:00.36 mín. en bætti um betur í úrslitum þegar hann kom í bakkann á 59.61 sek. Hollendingurinn Marc Evers varð Evrópumeistari á tímanum 58.66 sek. og þriðji varð Úkraínumaðurinn Vasyl Krainyk á 59.91 sek. Til hamingju með glæsilegt Íslandsmet Róbert Ísak!
Róbert verður áfram í eldlínunni á morgun þegar hann keppir í 200m fjórsundi en hann varð heimsmeistari í þeirri grein 2017 á HM í Mexíkó.
Verðlaunahafhendingin þar sem Róbert tekur á móti silfrinu er kl. 20:00 að staðartíma eða kl. 19:00 að íslenskum tíma og er hægt að fylgjast með henni í beinni netútsendingu á Facbook-síðu ÍF.
Myndir Jón Björn/ Róbert Ísak Jónsson silfurverðlaunahafi í 100m flugsundi S14.