Thelma fimmta og Guðfinnur sjötti


Þriðja keppnisdegi á EM fatlaðra í sundi er nú lokið en mótið stendur nú yfir í Dublin á Írlandi. Thelma Björg Björnsdóttir og Guðfinnur Karlsson tóku þátt í úrslitum í kvöld þar sem Thelma hafnaði í 5. sæti og Guðfinnur í 6. sæti.


Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR, hafnaði í 5. sæti í 100m bringusundi SB5 (hreyfihamlaðir) þegar hún kom í bakkann á 1:56.61 mín. Tíminn í úrslitum var snöggtum betri en í undanrásum í morgun þar sem Thelma synti á 1:56.77 mín. en Íslandsmet hennar í greininni er 1:52.79 mín.


Guðfinnur Karlsson, Fjörður, hafnaði í 6. sæti í úrslitum í 400m skriðsundi S11 (alblindir) þegar hann kom í bakkann á 5:45.62 mín. sem er rúmum þremur sekúndum hægar en hann fór í undanrásum í morgun. Úkraínumaðurinn Viktor Smyrnov varð Evrópumeistari á tímanum 5:01.63 mín.


Mynd/ Björn Valdimarsson: Thelma Björg að lokinni keppni í 100m bringusundi SB5 í Dublin í kvöld.