Guðfinnur og Thelma í úrslit!


Þriðji keppnisdagur á EM fatlaðra í sundi er hafinn í Dublin og ljóst að tveir íslenskir sundmenn verða í úrslitum í kvöld en það eru þau Guðfinnur Karlsson frá Firði og Thelma Björg Björnsdóttir frá Íþróttafélagi fatlaðra í Reykjavík (ÍFR).


Guðfinnur Karlsson, Fjörður, komst áðan í úrslit í 400m skriðsundi í flokki S11 (alblindir) er hann varð fimmti í undanrásum á tímanum 5:42.84 mín. Önnur greinin í röð þar sem Guðfinnur kemst í úrslit á EM! Guðfinnur þarf að spýta vel í lófana í úrslitum ef hann ætlar að gera atlögu að Íslandsmetinu í greininni en það hefur staðið frá árinu 1995 í eigu Birkis Rúnars Gunnarssonar og er 5:02.38 mín.


Thelma Björg Björnsdóttir, ÍFR, varð sjötta inn í úrslit í 100m bringusundi SB5 á tímanum 1:56.77 mín. Thelma á Íslandsmetið í greininni sem hún setti fyrr í sumar á opna þýska meistaramótinu í Berlín þegar hún synti á 1:52,79 mín.


Már Gunnarsson, ÍRB, varð ellefti í undanrásum í 50m skriðsundi S12 (blindir/sjónskertir) í morgun og missti því naumlega af úrslitum en hann kom í bakkann á tímanum 29,61 sek. sem er jöfnun á hans eigin Íslandsmeti upp á sekúndubrot!


Hjörtur Már Ingvarsson, Fjörður, komst ekki í úrslit í morgun í 100m bringusundi SB4 þegar hann kom í bakkann á tímanum 2.24.34 mín. Hjörtur verður þó varamaður í úrslitum í kvöld en hann þarf að skella í fluggírinn ef hann ætlar að slá Íslandsmetið sem staðið hefur frá Paralympics í Barcelona 1992 og er í eigu Svans Ingvarssonar frá Suðra en sá tími var 2:10,86 mín.


Mynd/ Fjarðarliðarnir Guðfinnur og Hjörtur við keppnishöllina í Dublin á samt dyggustu stuðningsmönnum sínum en það vill svo heppilega til að þetta eru einnig foreldrar þeirra - Áfram Ísland.