Sonja Sigurðardóttir og Guðfinnur Karlsson tóku þátt í úrslitum á EM í sundi í kvöld. Sonja sem hóf leik á mótinu í kvöld setti nýtt Íslandsmet í flokki S4 (hreyfihamlaðir).
Guðfinnur Karlsson frá Íþróttafélaginu Firði sem í morgun synti sig inn í sín fyrstu úrslit á stórmóti gerði betur í úrslitum í kvöld er hann kom í bakkann á 1:29.88 mín. í 100m bringusundi en Guðfinnur synti á 1:32.25 mín í morgun. Guðfinnur hafnaði í 8. sæti en Úkraínumaðurinn Viktor Smyrnov varð Evrópumeistari á tímanum 1:17.15 mín.
Þá hafnaði Sonja Sigurðardóttir frá ÍFR í 6. sæti í 50m skriðsundi S4 í kvöld á nýju og glæsilegu Íslandsmeti þegar hún kom í bakka á tímanum 1:00.67 mín. en fyrra Íslandsmet Sonju í greininni var 1:01.27 mín. og hafði staðið síðan 2015. Til hamingju með Íslandsmetið Sonja!
Á morgun keppir Már Gunnarsson í 50m skriðsundi, Thelma Björg Björnsdóttir keppir í 100m bringusundi, Hjörtur Már Ingvarsson keppir í 100m bringusundi og Guðfinnur Karlsson keppir í 400m skriðsundi.
Mynd úr safni/ Sonja Sigurðardóttir setti Íslandsmet í kvöld en á meðfylgjandi mynd keppir hún á Paralympics í Rio árið 2016.