Föstudaginn 22. juni 2018 var móttaka í húsnæði Félags Þroskaþjálfa fyrir útskriftarnema í þroskaþjálfun, leiðbeinenda lokaverkefna og kennara. Þar hlaut Jana Hrönn Guðmundsdóttir viðurkenningu og styrk úr viðurkenningarsjóði Þroskahjálpar fyrir lokaverkefni sem unnið var í samstarfi við Special Olympics á Íslandi. Verkefnið er íslensk handbók YAP sem byggð er á hreyfiæfingum fyrir börn á leikskólaaldri, börn sem sérþarfir sem önnur börn. Leiðbeinandi Jönu var Anna Karólína Vilhjálmsdóttir sem var viðstödd afhendinguna og tók mynd af athöfninni. Til hamingju Jana Hrōnn og takk fyrir mikilvægt framlag, glæsilegt.
Verkefnið YAP eða young athlete project er fyrir 2 - 7 ára börn og markmið er að horfa sérstaklega á þau börn sem þurfa af einhverjum ástæðum hvatningu og örvun til aukinnar hreyfiþjálfunar. Þó markmið sé að börn með sérþarfir fáir snemmtæka íhlutun á sviði hreyfifærni hefur verkefnið verið innleitt á Íslandi með það að markmiði að öll börn njóti góðs af. Verkefnið hefur verið innleitt frá árinu 2016 í heilsuleikskólanum Háaleiti Ásbrú, sem áður var þó með mjög öflugt starf á sviði hreyfiþjálfunar. YAP verkefnið er talið hafa haft mjög jákvæð áhrif þar og rannsókn hefur verið gerð sem staðfestir góðan árangur, ekki aðeins m.t.t. hreyfifærni heldur ekki síður félagsfærni, málþroska og annarra þátta. YAP verkefnið hefur verið kynnt fyrir leikskólum víða um land en innleiðingu er stýrt frá skrifstofu ÍF og tekur mið af verkefnastöðu á hverjum tíma. Með tilkomu íslenskrar handbókar er vonast til þess að fleiri geti nýtt hugmyndafræði YAP þar sem horft er sérstaklega á þá þætti sem þarf að bæta og að árangri sé náð með auka hreyfitímum og/eða markvissu samstarfi við leikskólakennara í daglegu lífi barnanna. Æskilegt er að til staðar sé íþróttafræðimenntaður aðili /fagaðili hreyfingar sem getur haft yfirumsjón með verkefninu en slíkt skortir hjá mörgum leikskólum.