Undirbúningur fyrir Íslandsmótið í Vestmannaeyjum í fullum gangi og YAP verkefnið á leið til Eyja


Íslandsmót ÍF í boccia einstaklingskeppni verður haldið í Vestmannaeyjum 5 - 7 október 2018

Fulltrúi ÍF, Anna Karólína Vilhjálmsdóttir heimsótti Vestmannaeyjar í síðustu viku en tilefni heimsóknarinnar var að taka stöðuna vegna Íslandsmót ÍF í haust og hitta leikskólastjóra vegna YAP verkefnisins.  Þetta var sérlega ánægjuleg heimsókn og ljóst að Sylvía  Guðmundsdóttir formaður íþróttafélagsins Ægis hefur lagt mikið í undirbúning með sínu liði. 

Auk hefðbundins undirbúnings og skipulags Íslandsmóta ÍF er alltaf reynt að nýta mótin úri á landsbyggðinni til að vekja athygli á aðgengismálum. Margt hefur gerst í aðgengismálum í Eyjum frá þvík síðasta Íslandsmót ÍF var haldið árið 2011 og það er ánægjulegt en margt má þó enn betur fara og vonandi verður áfram unnið að úrbótum. Auk þess að fara yfir málin og aðgengi vegna Íslandsmótsins áttu AKV og Sylvia fund með þremum leikskólastjórum í Vestmannaeyjum en þar eru 3 leikskólar sem allir eru í mismunandi formi, Hjallastefnan, leikskóli sveitarfélags og 5 ára leikskóli tengdur grunnskólanum. Efni fundarins var kynning og umræða um YAP verkefnið og er óhætt að fullyrða að viðtökur voru frábærar. Stefnt er að því að halda kynningu YAP fyrir starfsfólk leikskólanna í byrjun september 2018 og að tengja YAP verkefnið við starfsemi Ægis og annarra íþróttafélaga í Vestmannaeyjum. Sylvía Guðmundsdóttir formaður Ægis er sannarlega að stýra góðum verkum í Eyjum og fær góðan stuðning heimafólks til þess. ÍF þakkar frábærar móttökur í Vestmannaeyjum.