Róbert í úrslit og annað Íslandsmet!


Sundmaðurinn Róbert Ísak Jónsson frá Íþróttafélaginu Firði í Hafnarfirði er að finna sig vel í lauginni á opna breska meistaramótinu sem nú stendur yfir í Sheffield á Englandi. Annan keppnisdaginn í röð er Róbert að setja Íslandsmet og tryggja sér þátttökurétt í úrslitum. Róbert keppir í flokki þroskahamlaðra og bæði metin sem hann hefur sett til þessa voru áður í eigu Jóns Margeirs Sverrissonar.


Róbert keppti áðan í 200m fjórsundi og kom í bakkann á tímanum 2:17.01 mín. en fyrra Íslandsmetið var í eigu Jóns Margeirs og var 2:17.98 mín. og var sett á EM í Portúgal sumarið 2016. Róbert syndir í úrslitum seinnipartinn en Þórey Ísafold Magnúsdóttir frá ÍFR var einnig að keppa í 200m fjórsundi S14 í morgun og kom í bakkann á tímanum 3:02.89 mín. og hafnaði í 55. sæti og náði ekki inn í úrslit að þessu sinni.