Tvö ný Íslandsmet í kraftlyftingum hjá Vigni og Sigríði


Íslandsmót Íþróttasambands fatlaðra í samstarfi við Kraft og félagsmenn frá kraftlyftingafélögum Akraness, Reykjavíkur og kraftlyftingadeild Breiðabliks fór fram í íþróttahúsi ÍFR í dag. Á mótinu voru sett tvö ný og glæsileg Íslandsmet en þau áttu Vignir Þór Unnsteinsson og Sigríður Sigurjónsdóttir.


Vignir Þór setti nýtt Íslandsmet í bekkpressu þegar hann pressaði upp 155kg í +120kg flokki. Þá setti Sigríður Sigurjónsdóttir nýtt Íslandsmet í hnébeygju þegar hún tók 120kg í +84 kg flokki.


Sigríður hafði sigur í kvennaflokki með 225,45 stig og lyfti samtals í hnébeygju, bekkpressu og réttstöðulyftu 285 kg. Í 2. sæti var Sveinbjörg Sveinbjörnsdóttir og María Sigurjónsdóttir hafnaði í 3. sæti.


Daníel Unnar Vignisson hafði sigur í flokki þroskahamlaðra með 318,6 stig, Vignir Þór Unnsteinsson hafnaði í 2. sæti með 302,67 stig, í 3. sæti var Jón Reynisson með 193,72 stig og Ólafur Aron Einarsson með 191,9 stig.


Arnar Vilhjálmsson og Sigurjón Ægir Ólafsson kepptu í flokki hreyfihamlaðra, Arnar í bekkpressu en Sigurjón í öllum þremur greinum í flokki standandi. Sigurjón landaði 148 stigum í keppninni og Arnar 64,9.


Mótið fór einstaklega vel fram í styrkri umgjörð Kraft og aðildarfélaga þess sem nefnd eru að ofan við framúrskarandi aðstæður í aðstöðu ÍFR að Hátúni.


Íþróttasamband fatlaðra vill koma á framfæri innilegu þakklæti til allra þeirra sem tóku þátt við að hafa jafn öfluga umgjörð á borðtennis- og kraftlyftingamótinu í dag.


Mynd/ AKV: Vignir Þór Unnsteinsson sáttur með nýja Íslandsmetið sitt í bekkpressu.