Íslenski hópurinn kominn heim eftir langt úthald


Íslenski Vetrar-Paralympic hópurinn kom heim til Íslands aðfararnótt þriðjudags en það voru sælir og þreyttir kappar sem lentu í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Hópurinn hélt út til Suður-Kóreu þann 6. mars síðastliðinn svo þetta var ríflega tveggja vikna úthald á okkar mönnum.

Eins og áður hefur komið fram var Hilmar Snær Örvarsson skíðamaður frá skíðadeild Víkings glæsilegur fulltrúi Íslands á leikunum sem hafnaði í 13. sæti í svigi og 20. sæti í stórsvigi en Hilmar klifraði myndarlega upp heimslistana í greinunum.


Jóhann Arnarson varaformaður Íþróttasambands fatlaðra tók á móti hópnum og óskaði þeim til hamingju með árangurinn ytra en Jóhann hljóp í skarðið fyrir formann sambandsins þetta kvöldið sem var enn á ferðalagi til Íslands þegar hópurinn lenti í Leifsstöð.


Mynd/ JBÓ - Þeir Þórður Georg Hjörleifsson, Hilmar Snær Örvarsson og Einar Bjarnason voru kátir við komuna til landsins í gærkvöldi.