Vetrar-Paralympics lokið: Ásmundur studdi Hilmar til dáða


Vetrar-Paralympics í PyeongChang í Suður-Kóreu er lokið en þeim lauk sunnudaginn 18. mars með veglegri lokaathöfn. Við Íslendingar getum verið afar ánægðir með árangur okkar manns ytra en hinn 17 ára gamli Hilmar Snær Örvarsson sendi besti skíðamönnum heims svo sannarlega tóninn ytra og varaði við því sem koma skal!


Hilmar hafnaði í 20. sæti í stórsvigi og 13. sæti í svigi og í báðum greinum bætti hann punktastöðu sína umtalsvert.


Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra var gestur ÍF í Suður-Kóreu og fylgdist með Hilmari í svigkeppninni þann 16. mars síðastliðinn en Ásmundur kom gagngert frá Bandaríkjunum þar sem hann hafði setið ráðstefnu hjá Sameinuðu þjóðunum. Þá var Helga Steinunn Guðmundsdóttir fyrrum varaforseti ÍSÍ og fulltrúi Samherjasjóðsins einnig á meðal gesta en þeim til halds og trausts ytra voru Þórður Árni Hjaltested formaður ÍF og Ólafur Magnússon framkvæmdastjóri afreks- og fjármálasviðs ÍF.


Bandaríkjamenn voru sigursælastir á verðlaunapalli þessa Vetrar-Paralympics með alls 36 verðlaun og unnu t.d. granna sína frá Kanada í framlengdum leik í íshokkýkeppninni. Hlutlausir íþróttamenn frá Rússlandi sem kepptu undir fána IPC unnu til 24 verðlauna og í 3. sæti var Kanada með 28 verðlaun. Efsta Norðurlandaþjóðin var Noregur með alls 8 verðlaun í 14. sæti en Norðmenn unnu ein gullverðlaun, þrenn silfur og fjögur brons.


Íslenski hópurinn er svo væntanlegur heim til Íslands í kvöld eftir langa og stranga útgerð en Íþróttasamband fatlaðra vill koma á framfæri innilegu þakklæti til allra samstarfs- og styrktaraðila og allra þeirra er tóku þátt í undirbúningi og framkvæmd Íslands við þátttöku í Vetrar-Paralympics 2018. Þetta var í fjórða sinn sem Ísland tekur þátt í leikunum og Hilmar yngsti keppandi Íslands frá upphafi og fyrstur til að keppa í standandi flokki í alpagreinum.


Mynd/ Frá Paralympic-Village þar sem Helga Steinunn Guðmundsdóttir heimsótti þá félaga í þorpið ásamt Þórði Árna Hjaltested formanni ÍF. Frá vinstri eru Þórður Árni, Helga Steinunn, Hilmar Snær, Þórður Georg og Einar.