19 íslenskir keppendur taka þátt í opna Norðurlandamótinu í sundi sem fram fer helgina 25. - 26. nóvember í Ásvallalaug, Hafnarfirði. Keppendur eru frá Íslandi, Danmörku, Svíþjóð, Færeyjum, Finnlandi og Eistlandi, alls 62.
Sundnefnd ÍF og yfirmenn landsliðsmála ÍF standa að framkvæmd og undirbúningi mótsins í samstarfi við skrifstofu ÍF en markvisst hefur verið unnið að því að efla og styrkja skipulag afreksmála ÍF. Keppt er í öllum fötlunarflokkum en sérstakt viðmiðunarkerfi er notað til að mæla árangur, Multi Disability keppnisform sem hefur verið notað áður á NM í sundi. Í keppnishópinn vantar nokkra sterkustu keppendur Norðurlandanna en ástæðan er sú að HM í sundi fer fram strax að loknu NM. Mótið átti að fara fram í Mexico í haust en vegna hættu á jarðskjálftum á svæðinu á þeim tíma var það fært fram í byrjun desember.
Skipulag dómaramála verður á vegum dómaranefndar SSÍ en yfirdómarar mótsins eru Björn Valdimarsson og Jón Hjaltason. Umsjón með verðlaunaafhendingu hefur Kristín Rós Hákonardóttir, sunddrottning sem oftar hefur staðið sjálf á pallinum. íþróttafélagið Fjörður sér um veitingasölu á mótinu en félagið er með glæsilega æfingaaðstöðu í Ásvallalaug.
Sérstakar þakkir fær Sundfélag Hafnarfjarðar, SH fyrir aðstoð við undirbúning mótsins
Nánari dagskrá og aðgengi að úrslitum mótsins verður sett inn síðar.