Paralympic-dagurinn 2017 í Laugardal


Dagskráin fyrir Paralympic-daginn 2017 er heldur betur vegleg að þessu sinni en Paralympic-dagurinn er stórskemmtilegur kynningardagur á íþróttastarfi fatlaðra á Íslandi. Líkt og tvö síðustu ár fer dagurinn fram í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal en nú höfum við einnig bætt við sundkynningu í innilauginni í Laugardal þar sem gestir dagsins fá frítt ofan í innilaugina á sjálfum deginum!


Paralympic-dagurinn 2017 hefst í innilauginni í Laugardal kl. 11:00 og stendur sundkynningin til kl. 13:00. Á sundkynningunni mun Tanya frá Heilsuskóla Tanyu í Kópavogi kenna Aqua Zumba en þar er sama formúla notuð og í Zumba Fitness þar sem dansað verður í sundlauginni!


Frá kl. 13:00 hefst svo Paralympic-dagurinn í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal þar sem fyndlistakonan Saga Garðarsdóttir tekið að sér að stýra deginum og mun hún spreyta sig á hinum ýmsu íþróttagreinum með gestum.


Nóg verður við að vera, fjölbreyttar íþróttakynningar, hoppukastali, Atlantsolía mætir með pylsuvagninn, Latibær heilsar upp á hátíðargesti og listamenn stíga á stokk og flytja gestum dagsins nokkra ljúfa tóna. Þá verðum við einnig með skemmtilegan myndabás á staðnum.


Á Paralympic-daginn viljum við að allir fái að prófa sem fjölbreyttastar íþróttir fyrir fatlaða sem stundaðar eru á Íslandi. Íþróttanefndir ÍF og aðildarfélög sambandsins munu kynna starfsemi sína svo það ættu allir að finna eitthvað við sitt hæfi.


Leggðu leið þína í Laugardal þann 21. október næstkomandi, vertu með!


Viðburður á Facebook: Paralympic-dagurinn 2017