Alþjóðaólympíuhreyfing fatlaðra (IPC) sendi áðan frá sér tilkynningu þar sem fram kemur að heimsmeistaramótum fatlaðra í sundi og lyftingum sem fara áttu fram í Mexíkó 25. september - 7. október næstkomandi hafi verið frestað um óákveðinn tíma sökum hamfaranna sem dundu á landinu í gær 19. september.
Í tilkynningu frá IPC segir að ákvörðunin um að fresta mótinu um óákveðinn tíma hafi verið tekin í nánu samráði við undirbúningsnefnd heimsmeistaramótanna í Mexíkó sem og stjórnvöld þar í landi.
Hundruðir týndu lífinu skv. tilkynningu IPC í jarðskjálfta gærdagsins sem mældist 7,1 á Richter-skalanum. Þá hafa orðið gríðarlegar skemmdir á byggingum og öðrum innviðum Mexíkó-borgar. Öllum þjóðlöndum hefur verið ráðlagt að ferðast ekki til Mexíkó vegna þessa en til stóð að Ísland sendi alls sjö manna sveit á mótið og þar af voru fjórir keppendur.
Nánari tíðindi af þessu máli verða flutt eins fljótt og auðið er en hér að neðan er hægt að nálgast yfirlýsingu IPC í fullri lengd.