Í dag fagnar Íþróttasamband fatlaðra 38 ára afmæli sínu en þann 17. maí árið 1979 var sambandið stofnað. Fyrsti formaður ÍF var Sigurður Magnússon. Á þessum tæpu fjórum áratugum hefur sambandið haft fjóra formenn en Ólafur Jensson tók við formennsku af Sigurði Magnússyni en báðir eru þeir Sigurður og Ólafur látnir.
Sveinn Áki Lúðvíksson var þriðji formaður sambandsins en hann lét af embættinu í ár og varð Þórður Árni Hjaltested aðeins því fjórði formaður ÍF í sögunni á sambandsþingi ÍF fyrr á árinu.
Íþróttasamband fatlaðra (ÍF) er stofnað 17. maí 1979 og er eitt af 32 sérsamböndum innan ÍSÍ. Öll félög innan Í.S.Í. er iðka, æfa og keppa í íþróttum fatlaðra eru aðilar að Í.F.
Skrifstofa ÍF er í íþróttamiðstöðinni í Laugardal. Sérstaða miðað við önnur sérsambönd er sú, að ÍF hefur ekki aðeins með eina ákveðna íþróttagrein að gera. Íslandsmót ÍF eru haldin í boccia, bogfimi, borðtennis, frjálsum íþróttum, lyftingum og sundi. Auk þess fara fram æfingar og/eða keppni í fleiri greinum s.s. fimleikum, keilu, knattspyrnu, vetraríþróttum.
Hlutverk ÍF.
Hafa yfirumsjón með þeim íþróttagreinum sem fatlaðir stunda á Íslandi, annast útbreiðslu- og fræðslustarf varðandi íþróttir fatlaðra, vera fulltrúi Íslands varðandi erlend samskipti er tengjast íþróttamálum fatlaðra, gæta hagsmuna allra þeirra fötlunarhópa sem eru innan Í.F. en þeir eru:
Þroskahamlaðir, hreyfihamlaðir, sjónskertir, blindir og heyrnarlausir/skertir.