Þrjú ný Íslandsmet á fyrri keppnisdegi ÍM50


Fyrri keppnisdagurinn á Íslandsmóti Íþróttasambands fatlaðra í sundi í 50m laug var að ljúka en á þessum fyrri hluta voru sett þrjú ný Íslandsmet en þar voru á ferðinni Már Gunnarsson sundmaður ÍRB/Nes úr Reykjanesbæ og Kristín Þorsteinsdóttir sundkona Ívars frá Ísafirði.


Már setti nýtt Íslandsmet í flokki S12 í 200m skriðsundi er hann kom í bakkann á 2:22,78 mín. Þar með tók Már metið af Birki Rúnari Gunnarssyni sem átti besta tímann í flokkum S11 og S12 svo met Birkis stendur í flokki S11 en Már á þá nýja metið í flokki S12.


Fyrra Íslandsmetið hjá Kristínu Þorsteinsdóttur kom í 50m flugsundi er hún synti á 42,15 sek. en Kristín keppir í flokki S16 sem er flokkur einvörðungu skipaður keppendum með Downs-heilkenni. Hennar annað Íslandsmet kom í 100m skriðsundi er hún synti á tímanum 1:28,24 mín.


Mynd/ Jón Björn - Már og Kristín settu Íslandsmet á fyrri keppnisdegi ÍM50 hjá Íþróttasambandi fatlaðra í dag.