Ávarp Sveins Áka fráfarandi formanns á Sambandsþingi ÍF 2017


Varaforseti ÍSÍ, Helga Steinunn Guðmundsdóttir, formaður ITR, heiðursfélagi ÍF, Ólafur Þór Jónsson, samstarfsaðilar, ágætu þingfulltrúar, gestir og vinir.


Hér fer fram í dag 18. sambandsþing Íþróttasambands fatlaðra.


Hér eru flest andlit kunnug, en líka eru hér nokkrir nýir fulltrúar og vil ég bjóða þá sérstaklega velkomna. Bæði er það svo að stjórnarskipti eiga sér stað í félögunum og eins er að góðir félagar hafa fallið frá.  Síðan við komum hér síðast saman hefur Kristján M. Ólafsson, fyrrum formaður Gnýs fallið frá. Vil ég biðja viðstadda, þá sem geta, að standa upp og minnast hans með örstuttri þögn. Takk fyrir.

Þó einungis séu um tvö ár síðan við hittumst hér á Radisson SAS, Hótel Sögu, hefur margt gerst í málefnum íþrótta fatlaðra.  Vöxtur í starfi flestra íþróttafélaganna hefur verið góður þó svo að landsbyggðin eigi stundum erfitt uppdráttar vegna erfiðleika við að veita fötluðum þjónustu.


Hvert ár í starfi ÍF hefur sína einstöku áherslu og eru þau því oft misjöfn.  Þar sem starfið er svona víðtækt og ÍF sinnir mörgum fötlunarhópum sem og íþróttagreinum, verður fjölbreytileikinn mikill og ávallt spennandi verkefni sem þarf að sinna. En þetta hefur í för með sér að kostnaðurinn verður misjafn á milli ára, sum árin verða kostnaðarsamari en önnur.


Svo var einnig á þessu tímabili. Árið 2015, þegar heimsleikar Special Olympics í Los Angeles fóru fram, var miklu dýrara en árið 2016, þegar Paralympics leikarnir í Ríó fóru fram.


Er þetta vegna þess að þátttakan er miklu meiri á Special Olympics leikunum, heldur en á Paralympics leikunum og jafnframt þarf miklu fleiri aðstoðarmenn. Var kostnaðurinn því sambandinu þungur í skauti og kom árið út með rekstrarhalla. Sem betur fer höfðum við borð fyrir báru og gátum mætt þessum kostnaði en 2016 varð smá rekstrarafgangur sem hjálpar til að mæta þessu tapi. En allar þessar tölur verður farið betur yfir þegar reikningar sambandsins verða kynntir hér á þinginu. Nú þegar þetta er skrifað var að ljúka vetrarleikum SO í Austurríki en þar tóku þátt 4 íslenskir keppendur  ásamt 2 lögreglumönnum sem hlupu með kyndilinn. Eru þau nú á heimleið og lenda seinni partinn  í dag á meðan við eru á þinginu.

Margir viðburðir áttu sér stað á liðnu kjörtímabili og er hægt að minnast á margt hér í þessu ávarpi en þetta kemur fram í skýrslunni sem verður rædd hér á eftir og er því tvítekning að telja upp hér. Mig langar þó að minnast á að spjótkastarinn Helgi Sveinsson stórbætti heimsmetið í sínum flokki sem er F42, F43 og F44 í maí 2015 og stendur heimsmetið enn, þrátt fyrir Paralympics leikana í Ríó. Þessi árangur var staðfestur af IPC, alþjóða íþróttasamtökum fatlaðra og er kast Helga upp á 57,36 metra, sjötta lengsta kast Íslendings hvort heldur er, fatlaðs sem ófatlaðs.


Eins tók sundmaðurinn Jón Margeir Sverrisson, ásamt fleira sundfólki,  þátt í opna þýska meistaramótinu í maí 2015, en þar setti Jón Margeir tvö ný heimsmet í 200 og 400m skriðsundi.

Jafnframt langar mig að minnast á að Paralympics dagurinn sem er kynningarvettvangur á íþróttum fyrir fatlaða, hefur komið vel út og verið vel sóttur í þessi tvö skipti sem hann hefur verið haldinn og orðið til þess að nýir einstaklingar hafa skráð sig í íþróttir fatlaðra og eins gefið öðru íþróttafólki innsýn í hvaða íþróttagreinar eru í boði.

Eitt er sem veldur mér áhyggjum en það er að Íþróttasamband fatlaðra hefur haldið sumarbúðir fyrir fatlaða á Laugavatni í rúm 30 ár.  Hefur þetta verðið vinsælt meðal fatlaðra og hafa færri komist að en vildu. En nú er svo komið að það er verið að leggja niður alla starfsemi íþróttaskólans á Laugarvatni og þar með loka öllum íþróttamannvirkjum. Því lítur því út fyrir að í ár verði síðasta árið sem hægt verður að bjóða upp á þessar vinsælu sumarbúðir. Er þetta miður fyrir alla sem vilja njóta útiverunnar og hreyfingarinnar.

Þótt tíminn sé afstæður og það sem mörgum er sem heil eilífð er öðrum það sem stutt stund og þannig er mér farið hér á þessari stundu, er ég ávarpa ykkur við upphaf þessa þings.

Nú er svo komið í mínu lífi að ég hef ákveðið að hætta sem formaður ÍF.

Þótt margir hafi komið að máli við mig að halda áfram er þessi ákvörðun mín óhögguð enda vil ég taka undir orð Kristjáns Eldjárns forseta, þegar hann tilkynnti sína ákvörðun um að hætta sem forseti og sagði  „Og enginn hefur gott af því að komast á það stig að fara að ímynda sér að hann sé ómissandi."

Víst verður það stór vendipunktur þar sem íþróttir fatlaðra hafa verið stór þáttur í lífi mínu í 42 ár og þar af helmingurinn sem formaður ÍF eða í 21 ár.

En fyrir mér hefur þessi tími verið fljótur að líða og margt gerst og ýmsu áorkað.

Þegar ég tilkynnti skrifstofu og stjórn ÍF að ég hygðist láta af starfi formanns, kom Ólafur Magnússon að máli við mig og sagðist hafa áhyggjur af því að ég mundi við þessa þingsetningu rifja upp starf mitt í þessi 42 ár og mundi því helgin ekki duga til að hlusta á mig.

Ég vil nú þegar fullvissa Ólaf og ykkur öll um að það er ekki ætlun mín að fara yfir starf mitt í smáatriðum, en mig langar samt að minnast á nokkur atriði.


En þið skulið vera alveg róleg, dagurinn mun duga til starfa þingsins og vel það. Ólafur hefur oft grínast með að ég sé eins og Kim Jung il í N-Kóreu hvað varðar stjórnarsetu, en ég vil benda ykkur á að hann var bara formaður í 17 ár, ég toppa hann og vel það. 

En þegar ég hugsa til baka til þessara ára vil ég meina að starf mitt með fötluðu íþróttafólki hafi mótað líf mitt og þar af leiðandi minnar fjölskyldu til hins betra og hef ég kynnst mörgum hetjum sem ég vil kalla sanna Íslendinga í þessu starfi mínu.  Þar á ég ekki einungis við fatlaða íþróttamenn sem þó eru margir, heldur einstaklingar sem hafa á einn eða á annan hátt tengst starfinu. Það eru ótrúlega margir úti í þjóðfélaginu sem hafa stórt hjarta og eru tilbúnir að koma til liðs við þá sem þurfa aðstoð. Það hafa verið forréttindi fyrir mig að kynnast þessu fólki og það gleður mig að sjá mörg ykkar hér. Með aðstoð ykkar hefur starfið verið léttara.

Þegar ég byrjaði sem borðtennisþjálfari hjá ÍFR 1975, kynntist ég fötluðum einstaklingum sem voru að byrja i íþróttum, einstaklingum sem höfðu engar fyrirmyndir, þar sem allt var nýtt og enginn til að leita ráða hjá. Á þessum tíma var ekki heldur algengt að menn sýndu fötlun sína og hvað þá að það væri talið að þeir gætu keppt sem afreksmenn í íþróttum.

En þeir komu, sýndu sig, sáu og sigruðu. Aðstaðan var oft ekki upp marga fiska, gangar og kjallaraholur  notaðar. Árið 1980 var haldið fyrsta stór Ólymíumót fatlaðra þar sem við byrjuðum að láta til okkar taka og nú þegar ég læt af störfum, hefur Íslenskt afreksfólk úr röðum fatlaðra unnið til 98 verðlauna á Ólympíu-, heims- eða Evrópumótum og tel ég það vera einstakan árangur hjá svona fámennri þjóð, hvort sem fatlaðir eða ófatlaðir eiga í hlut. Við höfum í gegnum árin átt ótal marga frábæra afreksmenn sem of langt mál væri að telja upp hér, en þeirra afrek hafa verið öðrum íþróttamönnum mikil hvatning og aukið hróður okkar um allan heim. Því þykir mér leitt að enn í dag skulu afrekesmenn úr röðum fatlaðra ekki alltaf njóta sammælis, þá ekki síst hjá íþróttafréttamönnum og að það skuli enn bera á fordómum hjá þeim. En ekki má horfa fram hjá hinum stóra þætti þjálfaranna, án þeirra og þeirra þrautseigju og kunnáttu,  hefði okkar fólk ekki náð eins langt og raun ber vitni. Þar hefur valist úrvalsfólk með fagmennsku og vandvirkni í fyrirrúmi og hefur það átt stóran þátt í okkar sigrum.

En það voru ekki bara keppendur sem ég kynntist heldur voru þarna hugsjónamenn sem lögðust á árarnar nótt sem dag, til að byggja upp íþróttir fyrir fatlaða, ekki bara fyrir sitt eigið félag, heldur fyrir heildina, alla sem voru fatlaðir, hvar sem var á landinu.

Hugsjónamenn eins og Sigurður Magnússon, Arnór Pétursson og Ólafur Þór Jónsson, höfðu að leiðarljósi að fatlaðir einstaklingar gætu stundað íþróttir hvar sem þeir byggju á landinu og hver sem fötlun þeirra væri.

Eftir stofnun ÍFR 1974 þar sem Arnór var kjörinn fyrsti formaður, héldu þeir félagar áfram og Sigurður varð svo fyrsti formaður Íþróttasambands fatlaðra, þegar sambandið var stofnað 1979.

Sama var upp á teningnum með okkur þjálfarana á þessum tíma, við unnum fyrir hugsjónina og ekki minnist ég þess að við höfum tekið krónu fyrir okkar þjálfun, enda ekki mikil auraráð.

Þegar keppendum fjölgaði sem og íþróttagreinum fórum við að taka þátt í fleiri erlendum mótum og þá bættust fleiri þjálfarar og aðstoðarfólk í starfið. Þar var sama sagan, allir töldu sér ekkert óviðkomandi, hvort heldur það var læknir eða þjálfari, allir gengu í öll störf til þess að allt gæti gengið upp. Meira að segja eftir að Kristín Guðmundsdóttir, sundþjálfari, kom í hópinn sá hún til þess að þegar við þurftum að mæta í móttökur eða þess háttar í keppnisferðum, þá fór enginn í óstraujuðum fötum. Það er því þér að þakka Kristín að fyrir utan að vera frábær þjálfari að við bárum af í snyrtilegum klæðnaði!

Þó allt hafi verið smátt í sniðum í upphafi, óx starfinu fiskur um hrygg og fjölgaði félögunum, sérstaklega úti á landsbyggðinni. En með lokun vistheimila eða ákvörðunar að taka ekki inn nýja vistmenn fækkaði félögunum aftur. Ég vil þó taka fram eftir umræðuna um Kópavogshælið að þeir keppendur sem þaðan komu, sem og þeirra þjálfarar og umsjónarmenn, virtust ávallt vera ánægðir og sáttir saman.

En starf fatlaðra er ekki bara þjálfarar og keppendur. Ef ekki hefðu fengist menn og konur til stjórnunarstarfa, fólk sem af hugsjóninni einni var tilbúið að færa sínu félagi ótakmarkaðan tíma og vinnu, þá væri árangurinn ekki sá sem hann er í dag. Stjórnir hina ýmsu félaga voru ýmist aðstandendur fatlaðra sem höfðu áhuga á að stunda íþróttir sem og félagsráðgjafar  og áhugasamir einstaklingar sem voru hvatar þess að börn þeirra eða skjólstæðingar hófu að æfa íþróttir og gátu haldið því áfram.

Kraftur, fórnfýsi og dugnaður þessa fólks var og er aðdáunarverður og hefur mig stundum við verðlaunaafhendingar langað að setja verðlaunapening um háls þeirra, svo mikið dáist ég af þeim.

Margir þessara einstaklinga hafa ekki látið sér nægja að vinna að málefnum síns félags heldur hafa ávallt verið tilbúnir að bæta á sig fleiri verkefnum og langar mig sérstaklega til að nefna Ólaf Ólafsson, Olla í Öspinni, en fyrir utan að  hafa stjórnað sínu félagi farsællega frá upphafi, hefur hann líka setið í stjórn ÍF sem og stjórn Special Olympics. Olli, í mínum huga ert þú hetja sem ég lít upp til og er þakklátur að hafa kynnst.

En það hafa ekki bara verið einstaklingar sem hafa átt fatlaða aðstandendur eða unnið með þeim sem hafa komið að málefninu. Margir einstaklingar úr ýmsum áttum hafa lagt verkefninu lið.

Lions- og Kiwanisfólk sem og ýmis fyrirtæki og stofnanir hafa stutt við bakið á baráttu okkar og hjálpað okkur með vinnu og fjármagni til þess að okkur sem erum í stjórn, takist verkefnið.

ÍF hefur haft margt Lions- og Kiwanisfólk í stjórn og má þar fremstan nefna Ólaf Jensson, sem var formaður á uppvaxtartímum sem og Camillu Hallgrímsson sem var varaformaður í fjölda mörg ár.

Mig langar líka að minnast á þann mikla stuðning sem ÍF hefur fengið hjá forystumönnum Íþróttahreyfingunnar, bæði stjórn og starfsmönnum Íþrótta- og Ólympíusambandsins, ÍSÍ,  sem og öðrum sérsamböndum sem hafa komið í auknum mæli að starfinu með því að samtvinna meistaramót fatlaðra sem ófatlaðra og á þann hátt setja annan brag á mótin. Vil ég sérstaklega þakka KSÍ, FRÍ, Bogfimisambandinu, Golfsambandinu, Krafti og SSÍ fyrir þeirra skilning á að þeirra íþróttir eru fyrir alla. Einhvern tíma munu þessi sambönd taka alfarið yfir alla starfsemi fatlaðra einstalkinga sem sunda þeirra íþrótt en ÍF mun starfa sem regnhlífarsamtök fyrir alþjóðahreyfinguna, IPC, og sjá um þær íþróttagreinar sem eiga ekki sérsambönd. Íþróttasamband fatlaðra er sérsamband innan alþjóða Ólympíuhreyfingar fatlaðra sem er nú hluti að Alþjóða Ólympíuhreyfingunni, IOC, og er forseti IPC á stjórnarfundum IOC.  Þetta er því mikil viðurkenning á að ÍF er hluti af Ólympíuhreyfingunni enda fatlaðir keppendur í afrekshópi íþróttafólks um allan heim.

Eins vil ég minnast á þátt forseta lýðveldisins, en bæði Vigdís og Ólafur Ragnar voru sérstaklega áhugasöm og sótti Ólafur Ragnar fjölmörg mót, innanlands og utan og athafnir tengdar ÍF. Eins sýnist mér að núverandi forseti, Guðni Th. ætli ekki að verða eftirbátur forvera sinna en hans fyrsta opinbera ferð erlendis var til Ríó á Paralympics leikana þar s.l haust.  Það var mér mikil heiður að eitt mitt síðasta verk sem formaður ÍF var að sæma forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson, forsetastjörnu ÍF.

ÍF hefur átt því láni að fagna að hafa marga samstarfsaðila sem hafa sumir hverjir verið með okkur frá upphafi.  Erum við mjög ánægð með þetta samstarf og höfum við reynt að velja úr fyrirtæki sem við berum virðingu fyrir og við teljum að njóti virðingar hjá þjóðinni allri.

Til gamans má geta þess að þegar ég tók við sem formaður ÍF 1996, þá voru reikningar til samþykktar á þinginu, um 30 milljónir, en í dag þegar við leggjum fram reikninga eru þeir upp á 115 milljónir!

Að hafa hugsjón er eitt, að taka skynsamlegar ákvarðanir er annað, að geta tengt þetta saman svo útkoman verði hagstæð, ekki bara fyrir daginn í dag heldur fyrir framtíðina hefur verið leiðarljósið í starfi ÍF. Sú gæfa að geta staðist áreiti utanaðkomandi aðila, ekki beygja sig fyrir aðdróttunum, heldur hugsað staðfastlega um heildina, er mikilsvirði fyrir sambandið og vona ég að slíkt fólk verði ávallt valið til stjórnunarstarfa ÍF.

Enn og aftur vil ég nefna hversu mikil heiður það er fyrir mig að hafa unnið með öllu þessu góða fólki, bæði fyrrverandi og núverandi stjórnarfólki.

En ekki get ég látið staðarnumið með að þakka bara stjórnarfólki. Þrátt fyrir ágæti þess liggur hiti og þungi starfsins hjá starfsfólki sambandsins.


Frá því að starf ÍF jókst frá því að vera eingöngu sjálfboðavinna í að þurfa að hafa starfsmann til að huga að og vinna að hinum margvíslegu verkefnum hefur margt breyst. Það var því tiltölulega snemma að ráðinn var starfsmaður í hálft starf og hafa starfsmenn einungis verið 5 frá upphafi:


Markús Einarsson: 1982 – 1990
Ólafur Magnússon: 1984 –
Anna K. Vilhjálmsdóttir: 1990 –
Anna G. Sigurðardóttir: 1996 - 2008
Jón Björn Ólafsson: 2008 –

það hefur verið gæfa sambandsins að hafa þetta góða fólk í vinnu, fólk sem hefur verið tilbúið að vinna hvenær sem er og hvar sem er.

Að hafa einstaklinga sem hægt er að treysta fyrir daglegum verkefnum og vinna af heilhug að uppbyggingu starfsins. Að leggja fram hugmyndir um nýjungar og fjölbreytileika í starfinu er ekki öllum gefið en þessir einstaklingar hafa þetta í sér í ríkum mæli.

Sem formaður ÍF hefur því starf mitt verið meira undir þessu góða fólki komið heldur en stjórnarfólki og er ég þeim mjög þakklátur fyrir þá leiðsögn sem og umburðarlyndi sem þau hafa sýnt mér í starfi mínu sem formanns. Mig langar sérstaklega minnast á samstarf okkar Ólafs sem hefur verið mjög náið og flekklaust í öll þessi ár og ekki veit ég hvernig ég hefði ráðið við formennskuna án þessa góða samstarfs. Hafið þökk öll sömul.

En mig langar þó sérstaklega að nota þetta tækifæri til að þakka konunni minni, Sigrúnu Jörundsdóttur, sem hefur staðið sem klettur við hlið mér í öll þessi ár og gert mér kleift að sinna starfi mínu fyrir fatlaða. Hún hefur stutt mig í starfi, leiðbeint mér og hvatt mig til dáða. Hún hefur ritskoðað og prófarkarlesið Hvata í 20 ár sem og mína ritsmíð og ávörp. En fyrst og fremst hefur hún komið drengjunum okkar til manns og dáða í fjarveru minni, og hún var langt á undan Jóhönnu Sigurðar, þegar hún var spurð hvort ekki væri erfitt að vera svona ein, þá sagði hún ávallt: ,, minn tími mun koma“. En, hún sagði líka við sömu spurningu að hún fengi ekki leið á mér á meðan ég væri fjarverandi.  Nú er spurninginn, að ef hennar tími er kominn og við getum verið meira saman, hvort hún fái ekki fljótt leið á mér!

Ég hef reynt að leggja mig allan fram til að auka vegferð íþrótta fatlaðra og gert það eftir bestu getu af sannfæringu og af heiðarleika og með hagsmuni allra að leiðarljósi.

Nú þegar ég hætti, stendur Íþróttasamband fatlaðra traustum fótum, bæði í íþróttum sem og fjárhagslega.

Ég er sannfærður um að svo verði áfram og að starfsemi þess muni vaxa og dafna með þeim einstaklingum sem taka við framtíð þess. Ég mun njóta þess að fylgjast með frá hliðarlínunni og fagna með ykkur hverjum sigri, innanlands sem utan.


En sambandsþing ÍF er ekki bara til að upplýsa þingfulltrúa um liðin verkefni heldur fyrst og fremst til að ræða framtíðina, móta hana og sjá til þess sameiginlega að hún verði björt. Ég er sannfærður um að svo verði gert hér á þessu þingi í dag.


Eitt þeirra ánægjulegu starfa sem falla formanni í skaut, er að þakka fólki fyrir vel unnin störf. Það er ekki of oft gert og mætti gera oftar. Til þessa höfum við heiðursmerki sambandsins. Í reglugerð sambandsins um viðurkenningar segir: Gullmerki sambandsins, er úr gulli og veitist íslenskum ríkisborgara fyrir góð störf í þágu íþróttamála fatlaðra í heild, einstakra íþróttagreina eða félaga. Einnig má veita erlendum ríkisborgurum gullmerki ÍF.


Mig langar að biðja Ragnheiði Austfjörð, formann Eikar á Akureyri, að koma hingað upp og taka við gullmerki ÍF fyrir vel unnin störf fyrir sitt félag í áraraðir.


Einnig vil ég biðja Karl Þorsteinsson, formann boccianefndar ÍF, að veita viðtöku gullmerki ÍF fyrir óeigingjarnt starf fyrir hreyfinguna.

Síðast en ekki síst veitist mér sá heiður að veita Helgu Steinunni Guðmundsdóttur, varaforseta Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands og  stjórnarmanns Samherja einum samstarfsaðila okkar og sérstökum vini fatlaðra íþróttamanna á Íslandi, gullmerki ÍF.  Helga Steinum hefur veitt okkur þá ánægju og heiður að vera með okkur á stórmótum sem heiðursgestur, t.d á vetrarleikum Paralympics í Sochi, á Evrópu- og heimsleikum SO og nú síðast á Paralympics í Ríó.

Helga Steinunn ef þú vildir koma hér upp og veita gullmerki ÍF viðtöku.

Á þessu þingi liggja fyrir nokkrar tillögur sem lúta að endurbótum að laga- og leikreglum, þá sérstaklega til aðlögunar að breytingum hjá Íþrótta- og Ólympíusambandinu og er því nauðsynlegt að samþykkja þær.

Þetta er í síðasta skipti sem ég set sambandsþing Íþróttasambands fatlaðra.

Hafið þökk fyrir allt.

Ég segi 18. sambandsþing Íþróttasambands fatlaðra sett.

Sveinn Áki Lúðvíksson
25. mars 2017