Alþjóðavetrarleikar Special Olympics sem hófust 18. mars lauk með lokahátíð 25. mars. Nína Margrét Ingimundardóttir og Júlíus Pálsson voru fyrstu Íslendingarnir til að keppa í parakeppni, karla og kvenna en þau kepptu einnig í einstaklingskeppni, level 2.
Ásdís Ásgeirsdóttir og Stefán Páll Skarphéðinsson sýndu góða takta í byrjendaflokki og það kom vel í ljós hve vel er haldið utan um keppendur af góðum þjálfurum hjá skautadeild Aspar. Allir hafa tekið miklum framförum og öðlast aukið sjálfstraust á svellinu.
Þjálfarar voru Helga Olsen og Ragna Gunnarsdóttir en keppendur nutu einnig mikils stuðnins aðstandenda sem þarna voru mættir til að fylgjast með og styðja íslenska hópinn. Það var einkennandi hve mikil samstaða ríkti og gleði yfir litlum og stórum sigrum, jafnt á svellinu sem í daglegum verkefnum. Íslenskur alþjóðadómari var í fyrsta skipti að starfa á alþjóðavetrarleikum Special Olympics en það var Svava Hróðný Jónsdóttir. LETR (Law Enforcement Torch Run) er samstarfsverkefni lögreglumanna og Special Olympics.
Ísland átti 2 fulltrúa LETR á leikunum, Daða Þorkelsson sem hljóp kyndilhlaup með alþjóðlegu liði lögreglumanna og Guðmund Sigurðsson sem var sýndur sá heiður að vera valinn í undirbúningsnefnd vegna LETR kyndilhlaupsins 2017.
Á leikum Special Olympics eiga allir sömu möguleika á verðlaunum og aðstandendur upplifðu mjög sterkt þann anda sem ríkir á leikunum þar sem horft er á styrkleika fremur en veikleika og þá hæfileika sem hver og einn býr yfir.
Meira um leikana á Facebook - ÍF
Meira um leikana á Facebook - Team Iceland Special Olympics 2017