Nýárssundmóti fatlaðra barna og unglinga lauk í Laugardalslaug í dag þar sem Fjarðarliðinn Róbert Ísak Jónsson (S14-þroskahamlaðir) vann Sjómannabikarinn annað árið í röð fyrir besta sundafrek mótsins. Þetta er í níunda sinn á 34 árum sem sundmaður frá Firði í Hafnarfirði vinnur Sjómannabikarinn. Herra Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands var heiðursgestur Íþróttasambands fatlaðra við mótið og veitti keppendum þátttökuverðlaun og þá afhenti hann Róberti Sjómannabikarinn fyrir afrek sitt við mótið. Ríflega 70 börn tóku þátt í mótinu þetta árið.
Besta sund Róberts á mótinu gaf honum 671 stig en þá synti Róbert í 50m bringusundi á tímanum 34,75 sek. Róbert sem vann einnig í fyrra hlaut þá 590 stig fyrir 50m flugsund. Þetta var í 34. sinn sem Sjómannabikarinn er afhentur en bikarinn gaf Sigmar Ólason, sjómaður, til mótsins og er bikarinn veittur þeim einstaklingi sem vinnur besta sundafrek mótsins hvert ár.