Íslandsleikar Special Olympics fóru fram í Reykjaneshöllinni 27. nóvember 2016 en áður var hlaupið kyndilhlaup lögreglumanna þar sem Forseti Íslands tók þátt
Mikil stemmning var á Íslandsleikum Special Olympics í knattspyrnu sem fóru 27. nóvember í Reykjaneshöllinni. ÍF og KSÍ hafa verið í áralöngu samstarfi þar sem markmið er að efla knattspyrnuiðkun fyrir fólk með fötlun. Unnið er að því að efla þátttöku kvenna en einnig hefur verið innleitt verkefnið „unified football“ þar sem fatlaðir og ófatlaðir spila saman í liðum. Keppt var í tveimur styrkleikaflokkum og lið Aspar hlutu gull í báðum flokkum.
Á Íslandsleikunum í Reykjanesbæ var Ísland í sjöunda skiptið að taka þátt í alþjóðlegu samstarfsverkefni lögreglunnar og Special Olympics – LETR. Special Olympics á Íslandi hóf samstarf við lögregluna árið 2013 og frá þeim tíma hafa íslenskir lögreglumenn hlaupið kyndilhlaup fyrir Íslandsleikana. Það vakti mikla athygli að Forseti Íslands tók þátt í kyndilhlaupi lögreglumanna ásamt keppendum. Að loknu kyndilhlaupi ávarpaði hann viðstadda og sagði m.a. „ Mér finnst þetta mót gott dæmi um það hvað við getum gert þegar við stöndum saman og hugsum hvort um annað, mér finnst að samfélagið eigi alltaf að snúast um það og þá muni okkur vel farnast“ Hann tók síðan þátt í að setja mótið ásamt keppanda og lögreglumanni en saman kveiktu þeir eld leikanna. Forseti Íslands er fyrstur forseta Norðurlandanna til að hlaupa kyndilhlaup lögreglumanna. Verið er að leita eftir upplýsingum um hvort hann sé hugsanlega fyrsti forseti Evrópuþjóða til að taka þátt í alþjóðaverkefni LETR