Allur íslenski Paralympic-hópurinn er kominn heim til Íslands eftir leikana í Ríó de Janeiro. Tekið var formlega á móti hópnum í höfuðstöðvum Arionbanka við Borgartún í Reykjavík.
Keppendur og starfsfólk voru leyst út með blómvöndum frá stjórn Íþróttasambands fatlaðra og Helga Steinunn Guðmundsdóttir, varaforseti ÍSÍ, bauð hópinn formlega velkominn til landsins.
Íslensku keppendunum tókst ekki að vinna til verðlauna á Paralympics að þessu sinni en voru landi og þjóð til mikils sóma. Helgi Sveinsson setti Paralympic-met í spjótkastflokki F42 og Sonja Sigurðardóttir setti eitt Íslandsmet í sundi S4. Þá varð Þorsteinn Halldórsson fyrstur Íslendinga til að keppa í bogfimi á Paralympics en hann hefur klifrað hratt upp heimslistann í greininni.
Að loknu jafn stóru verkefni er ekki úr vegi að þakka sjálfu íþróttafólkinu fyrir sína frammistöðu sem og öllum þeim fjölmörgu einstaklingum sem að baki þeirra standa, enginn er eyland í íþróttum!
Þá vill Íþróttasamband fatlaðra koma á framfæri þakklæti til allra þeirra sem komu að vinnu við verkefnið sem og styrktar- og samstarfsaðilum.
Árangur íslenskra afreksmanna í hópi fatlaðra byggir á traustum og öflugum grunni og gríðarlega fórnfúsu starfi - fyrir það verður aldrei nægilega þakkað!
Mynd/ Sverrir Gíslason