Þorsteinn Halldórsson, Boginn, og Jón Margeir Sverrisson, Fjölnir, kepptu á Parlaympics í Ríó de Janeiro í Brasilíu í dag. Jón Margeir missti naumlega af sæti í úrslitum í 100m bringusundi og Þorsteinn Halldórsson féll út í fyrstu umferð í útsláttarkeppninni á trissuboga.
Þorsteinn mætti Bandaríkjamanninum Kevin Polish í 16 manna úrslitum en Polish var hæstur eftir ranking keppnina þann 10. september síðastliðinn. Þorsteinn lokaði keppninni með 129 stig en Polish lauk keppni með 143 stig og komst áfram í átta manna úrslit.
Þar með hefur fyrsti bogfimikeppandi Íslands á Paralympics lokið þátttöku en það er næsta víst að við fáum að heyra og sjá meira af Steina eins og hann er kallaður enda er hann sjálfur þegar farin að beina örvum sínum til Tokyo.
Lokaskorið í 16 manna úrslitum
Í morgun keppti Jón Margeir Sverrisson í undanrásum í 100m bringusundi þar sem hann kom í bakkann á 1.12,27mín. og varð fimmti í fyrri undarásariðlinum. Tíminn dugði honum ekki inn í úrslit að þessu sinni og þar með hefur Jón lokið tveimur af þremur keppnisgreinum sínum hér ytra en þann 17. september keppir hann í 200m fjórsundi.
Mynd/ Guðjón Einarsson tv. þjálfari og Þorsteinn Halldórsson th. á Sambodromo-vellinum í Ríó de Janeiro.