Sundmaðurinn Jón Margeir Sverrisson verður fánaberi Íslands þann 7. september næstkomandi þegar opnunarhátíð Paralympics fer fram í Ríó de Janeiro. Hátíðin verður á hinum heimsfræga Maracana-leikvangi á sjálfum þjóðhátíðardegi Brasilíumanna.
Jón er að keppa á sínum öðrum Paralympics á ferlinum en hann var einnig á meðal keppenda í London 2012. Jón keppir í flokki þroskahamlaðra (S14) en keppnisgreinar hans á Paralympics eru 200m skriðsund, 100m bringusund og 200m fjórsund.
Búist er við gríðarlega harðri keppni í 200m skriðsundi í flokki Jóns Margeirs þar sem okkar maður hefur þegar gefið út að hann ætli sér stóra hluti á mótinu hér ytra.